Monday, September 10, 2012

Hresst upp á J39 "Folkestolen"

"Folkestolen" fær ærlegt bað með garðslöngunni
Ekki lái ég neinum þess að telja mig endanlega af göflum genginn þegar þessar myndir eru skoðaðar, enda dettur sennilega fæstum í hug að taka J39 stólanna sína og setja þá undir garðslönguna. 
Borge Mogensen hannaði stólinn J39 um 1947 undir vinnuheitinu "Prik-stóllinn" fyrir FDB,  sem helgaði sig framleiðslu stílhreinna og ódýrra húsmuna. Stóllinn skyldi vera vandaður borðstóll á verði sem flestir réðu við. Þetta tókst svo vel að nú er J39 þekktasti stóll Danmerkur, hann er í hverju húsi og kallaður "Folkestolen" - stóll almúgans - svona rétt eins Volkswagen - bifreið fólksins - á götum Þýskalands á sínum tíma. 
Stóllinn er innblásin af stólum Shaker trúarflokksins sem smíðaði heimsins einlægustu húsgögn. Hjá Shaker fólkinu var notað einungis svo mikið efni sem í smíðinnar fór, allt efni kom frá Móður Jörðu og allir hlutir urðu að vera Guði þóknanlegir. Svo djúp var virðing þeirra fyrir verkefninu allir hlutir, t.d. kommóður, voru jafn vel gerðir að innan sem utan. Ástæðan: Guð er allstaðar - inni í kommóðum jafnt sem utan við. Fallegt.
J39 er eingöngu smíðaður úr náttúruefnum, viðurinn er eik eða beyki og setan er gerð úr pappírs snúru. Yfirborðið er ýmist ómeðhöndlað, lakkað eða sápumettað. Þess vegna þolir hann meðferð eins og stólarnir mínir fengu - allt efnið hefur einhverntímann nærst á vatni og samsetningin er þannig gerð að hún verður bara sterkari við smá raka. 

Spúla vel, þvo setu og við og þurka - blessuð sólin hjálpaði til
Ég fékk stólanna fyrir tilviljun, þeir voru afar illa farnir,  í setunum voru blettir og olía eins og af bifreiðaverkstæði, lakkið var víða gegnum slitið og viðurinn óhreinn og  máður. En að öðru leyti voru þeir bara fínir. Þessir stólar eru 15-20 ára gamlir, eftir þessa uppgerð duga þeir a.m.k. annað eins og svo aftur og aftur - marga mannsaldra.
Lakk, skemmdir og óhreinindi slípuð og nokkrar sprungur límdar.
Uppgerðin fólst í eftirfarandi: Bleyta setuna og þvo með mjúkum kúst og mildri ullarsápu, þrífa við og lakk með nylon netpúða, vatni og Speedball hreinsiefni. Skola vel og þurrka. Þetta tókst allt vel. Sem betur fer var plastlakk á stólunum, það losnar upp við mikinn raka, á eldri gerðir lakks þarf leysiefni og það er óttalegt vesen. Svo er bara að slípa allt vel, það má hvergi vera lakkblettur því hann kemur í ljós þegar stóllinn verður lakkaður aftur. Til að fyrirbyggja það er stóllinn strokinn með röku vaskaskinni áður en síðasta slípun er gerð,  þá reisir viðurinn sig örlítið og misfellur sjást, ef einhverjar eru. Ekki er ákveðið hvort stóllinn verður meðhöndlaður með lakki eða sápu. Á setunni verður annaðhvort silíkon eða Lux sápa


Hægri: Svona voru stólarnir - Vinstri: Svona eru þeir núna.
Það á eftir að lakka eða sápubera þá.
Á heimilinu eru gamlir J39 stólar með ónýta setu, við erum búin að kaupa pappírssnúru. 120 metrar í hvern stól - ætli það se ekki næsta verkefni - einhverntíman,

PS!  Stólar úr eik þola ekki svona meðferð og engin ábyrgð er tekin á afleiðingum þess að endurtaka það sem hér er sýnt! : )  Og: Nei, ég tek svona lagað ekki að mér fyrir aðra.


1 comment:

  1. Veistu hvar maður fær snúrur til að laga svona stóla? guðný sími 777 5008

    ReplyDelete

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.