Um H&H

Þessi síða hóf feril sinn á Facebook. Fljótlega kom í ljós að Facebook hentar ekki fyrir svona blogg, erfitt er að gera myndum og texta skil á aðgengilegan hátt og sennilega er fólk ekki að leita að svona síðum þar. Auk þess er Facebook lokað samfélag þó stórt sé.
Hún var því flutt hingað á Blogspot og hér hefur gengið mun betur að setja efnið skikkanlega fram. Hér verður hún þar til ljóst er hvort tilraunin hefur tekist eða þangað til skrifarinn gefst upp.
Kannske verður sett upp íslenskt lén og sérhönnuð síða seinna. Facebook síðan mun verða opin áfram, það kemur í ljós í hvaða átt hún þróast. 
Á Pinterest er ennfremur safnað tengingum á Íslenska hönnuði, sértsaklega húsgagna og innanhússarkitekta og vöruhönnuði. Pinterest hlutanum er ætlað að koma hönnuðum á framfæri, sem stendur er hann einskonar geymsla eða minnishólf, en hann eflist stöðugt og þegar nógu mörgum hefur verið safnað saman má huga að því að setja upp sérstaka síðu þar sem hægt er að skoða verk og komast í samband við íslenska hönnuði. Þið megið gjarnan láta vita um hönnuði sem ykkur finnst eiga heima þarna.
Tilgangur síðunnar er að skemmta skrifaranum sem hér situr en ef einhver annar hefur gaman af er það bónus - það er gaman að deila með einhverjum. Vonandi bætast fleiri skrifarar við einhverntímann. 
Nafn síðunnar segir til um hvaðan efnistökin koma. Hér er skrifað um hönnun, hluti og hönnuði og helst fylgir einhver fróðleikur með. Fjölmargar góðar myndasíður um innréttingar og innlit heim til fólks eru á netinu, Hönnun og hlutir mun ekki fylgja í þau spor.
Efnið er ekki mikið flokkað en þeir sem leita einhvers sérstaks geta notað leitarvélina á síðunni. Haft hefur verið orð á því að mikið sé af stólum á síðunni - því er til að svara að öll tímabil í hönnun eru þekkt fyrir stóla - segja má að stólar séu þau íkon hönnunartímabila sem flestir muna eftir. Það er því óhjákvæmilegt að þeir komi töluvert við sögu hér. 
Skrifarinn er frekar hægvirkur, uppfærslurnar koma því ekki með reglulegu millibili - svo þarf líka að sinna vinnunni stundum!

Uppfært í apríl 2014.

Nú hef ég ekki haft tíma í nokkra mánuði til að sinna H&H nægilega vel og mun því taka mér frí um skeið til að íhuga hvort framhald verður á þessum skrifum. Sjá nánar hér.
Vilji einhver hafa samband þá er netfangið: honnunoghlutir@gmx.com






No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.