Monday, December 27, 2010

Hillur, tré eða tréhillur?

Náttúran er eilíf uppspretta hugmynda, síbreytileg, lifandi og kenjótt. Hillurnar sem hér eru sýndar vísa allar í tré og skóg; í sumum er efnið tré, aðrar minna á trjástofn eða greinar, ein er minning úr frumskógi og ein fæst við endurnýtingu. Þær eiga þó allar það sameiginlegt að vera tilraun til þess að færa hlut úr náttúrunni inn í híbýli okkar og setja hann þannig í nýtt samhengi.


• Blockshelf • Hönnun/Design: Amy Hunting 

Amy Hunting lauk námi í húsgagnahönnun árið 2008. Hún er norsk, stundaði nám í Kaupmannahöfn og hefur vinnustofu í London.  Þessi hilla úr viðarbútum og kaðli hlaut 2. verðlaun sænsku Green Furniture samkeppninnar 2010. 



• Fargus hillur • Framleiðandi: AL 28.98

Fargus hillan er framleidd úr áli og tré. Álið fæst í nokkrum litum og tréð, sem myndar stofninn, fæst í viði eða í lit. Einingarnar eru sterkar og geta staðið hvar sem er, þannig að með þeim er hægt að búa til sinn eigin skóg. Ýmsir fylgihlutir, sem auka notagildið, fást með. Framleiðandi er AL 28.98.



• K122 Tree hillur / hengi • Hönnun / Design: F. Di Martino • Framleiðandi: X-Abitare

K122 Tree er eiginlega meira en hillur því það er hægt að nota þær á svo margvíslegan hátt, sem snaga, fyrir geisladiska og bækur og flest sem maður þarf að leggja frá sér. Efnið er plexigler í nokkrum litum, stærð: 98x15x112. Minna kannske svolítið á fjallagrös!


• Lunuganga • Hönnun / Design: WOKmedia

Hönnuðirnir Juile Mathias og Wolfgang Kaeppner urðu fyrir miklum áhrifum af frumskógum Sri Lanka, þegar þau voru þar við vinnu. Þau langaði til að taka eitthvað sérstakt með sér heim og þannig varð Lunuganga til. 
Hvað er hægt að kalla hlut sem hægt er að nota í næstum allt? Hann er fallegur einn og sér, nytsamur sem hilla, snagi eða hengi o.s.f.v. Hér er stungið upp á "áhald" eða "áhaldari" en flottasta nafnið er auðvitað bara "grein"- það liggur í augum uppi.
Meira um WOKmedia á hönnun & hlutir hér.




 •Wintertree • Hönnuður / Designer: Shawn Soh • Framleiðandi: TWENTYFIRST

Náttúran er síbreytileg og kóreanski hönnuðurinn Shawn Soh breytir hillunni sinni fyrir hverja árstíð. Hún hefur einnig notagildið í huga og hillan rúmar nú töluvert meira en sú fyrsta sem hún hannaði. Auk þess eru skemmtileg smáatriði eins sérstakt pláss til að senda ástarkveðjur.
Twentyfirst selur fallega hluti sem vert er að skoða. Hér er hægt að hlaða niður vörulistanum þeirra, hann er tæp 6 MB: Vörulisti.



1 comment:

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.