Thursday, March 24, 2011

„Hinn" Sindrastóllinn H-5

H-5 Sindrastóllinn - Hönnun: Ásgeir Einarsson
Sindrastóll" sem hefur áður komið við sögu hér á síðunni er ekki einn um að ganga undir því nafni - það er nefnilega til annar Sindrastóll en sá hefur eftirnafnið „H-5". Vafalaust kannast margir við þennan stól án þess að gera sér grein fyrir hve merkilegur hann er.  H-5 stóllinn er gerður úr rörum og trefjaplasti og bólstraður með ullaráklæði eða lambaskinni. Hann er einstaklega þægilegur,  sérstaklega með lambaskinni. Ásgeir Einarsson, framkvæmdastjóri húsgagnagerðar Sindra, hannaði stólinn. 
Geometrían er einföld; gjörð (hringur) sem virðist svífa því undirstaðan snertir ekki gjörðina og krossinn sem  tengir fæturna ítrekar miðjuna - eins og hringfara sé stungið niður. 
En það eru í raun tvær gerðir af H-5 stólnum og á þeim er regin munur. Fyrri gerðin er eins og myndin í auglýsingunni og lýsingin hér að ofan. Hin gerðin sést á myndinni hér til hliðar - þar er komin önnur (hefðbundin) undirstaða og fæturnir hafa verið færðir undir setu stólsins. Þar með breytist geometria og ásýnd stólsins mikið. Sumir mundu telja þetta sitt hvorn stólinn. 


Árið 1961 fór H-5 í mikla frægðarför til London í boði plastframleiðandans Bakelite. Þar fékk hann lofsverða dóma, umfjöllun í fjölda tímarita og var valin í "House of the Year" sem sýndi það markverðasta sem komið hafði fram á árinu.  The New Daily Mail sagði m.a. um hann (10.7.1961) :

Auglýsing í dagblaði (1960)


„Að sameina gæði og þægindi - það er vandinn, sem blasir við mörgum framleiðendum í dag, sérstaklega í húsgagnaiðnaðinum. Útlitið eitt getur selt, en er ekki alltaf fullnægjandi. Það má segja, að ljótur gamaldags stóll geti verið hinn þægilegasti, en það er lítið rúm fyrir hann nútíma heimili. Sindri hf í Reykjavík hefur sannað, að með kunnáttu á sniði og nútíma efnum sé hægt að sameina glæsileg form og þægindi. Hægindastóll fyrirtækisins hefur vakið mikla athygli í London, þar sem þeir hafa verið til sýnis á Interplast sýningunni í London, á vegum Bakelite Ltd. Skál stólsins er búin til úr Bakelite polyester resin, styrkt með glerþræði. Hún er afar sterk og létt, og auðvelt er að hreinsa áklæðið."


(heimild: Tímarit Iðnaðarmanna 01.01.62)


Árið 2012 verður H-5 fimmtugur. Í tilefni þess verður smíðað takmarkað upplag af honum eins og hér segir frá. Stóllinn verður til sölu hjá Sólóhúsgögn og GÁ Húsgögn.


H-5 í selskinni að hætti Grænlendinga.
Borðin hannaði Guðbjörg Magnúsdóttir


Uppfærsla 20.oktober 2012.

Nýlega fóru nokkrir H-5 stólar til menningarhúss Grænlendinga í Nuuk. Þar þótti rétt að klæða þá með selskinni, hinu þjóðlega efni Grænlendinga. 

Í þessum fíngerða búningi fá stólarnir einstakt yfirbragð. Slétt og glansandi selskinnið  upphefur form stólsins á allt annan hátt en lambaskinnið og þeir vitka einstaklega léttir. Það hefði verið gaman að sjá skammel í sama efni.




No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.