Sunday, June 12, 2011

Helgi Hallgrímsson - Ruggustóll 1968

Ruggustóll 1968 - Helgi Hallgrímsson húsgagnaarkitekt fhi
Stóllinn mun hafa verið smíðaður af Ingva Victorssyni í nokkrum
tugum eintaka og bóstraður af Ásgrími P Lúðvíkssyni.
Helgi Hallgrímsson (1911 - 2005) stundaði nám við Listiðnaðarskólann í Kaupmannahöfn að loknu sveinsprófi í húsgagnasmíði. Skólafélagar hans voru m.a. Skarphéðinn Jóhannsson (1914-1970), Hans Wegner, Børge Mogensen og Jens Risom. Allir áttu þeir eftir að hafa mótandi áhrif á norræna bygginga- og  húsganagerðarlist, hver á sinn hátt. Að loknu námi árið 1938 hélt Helgi til hálfs árs námsdvalar í Þýskalandi.

Hann var fyrstur íslenskra húsgagnaarkitekta til að setja upp sjálfstæða teiknistofu í Reykjavík árið 1938 og því sannur brautryðjandi íslenskrar hönnunar. Um tíma (1941-1946) rak hann einnig, ásamt öðrum,  húsgagnavinnustofu sem framleiddi húsgögn og innréttingar eftir teikningum hans. Árið 1940 hóf hann kennslu við Iðnskólann í Reykjavík. Þar var hann yfirkennari og gengdi starfi skólastjóra ef svo bar við til 1985. 

Helgi átti farsælt samstarf við fjölda arkitekta. Hann teiknaði m.a. húsgögn og innréttingar fyrir hús Hæstaréttar (1949), Landsbankann á Selfossi og Múlaútibú Landsbankans í Reykjavík, Ingólfsapótek í Fischersundi og Reykjalund. Eitt af fyrstu verkefnum hans hefur væntanlega verið að teikna litla matstofu, Uppsalakjallarann, í  húsinu Uppsölum í Aðalstræti 18, gegnt Herkastalanum. Eins og við mátti búast var verkið snyrtilega af hendi leyst - brjótsklæðning úr birki krossvið og reyklitir speglar fyrir ofan svo rýmið virtist stærra. 

Helgi var áhugasamur um félags- og fræðslumál. Hann var einn af stofnendum Félags húsgagnaarkitekta árið 1955 og heiðursfélagi í Félagi húsgagna- og innanhússarkitekta. Saga húsgagna var honum hugleikin og 1991 kom út bók hans " Stíll húsgagna", hin fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Í bókinni er m.a. að finna yfirlitskafla um íslenska húsgagnagerð.
.
Heimild: Morgunblaðið 1.sept."98, viðtal við Helga - 
Myndir: Scandinavian Design, Taschen 2002 - Sýningarskrá "Húsgögn 1961"
.

Bætt við 13. október 2011:
Dr. Arndís S. Árnadóttir hönnunarsagnfræðingur flutti fróðlegan fyrirlestur um verk Helga Hallgrímssonar Í Hönnunarsafninu 10. október 2011. Það er gott til þess að vita að svo greinagóðar heimildir hafi verið teknar saman um verk Helga, sem eru ótrúlega mörg, fjölbreytileg og vönduð. Við þetta tækifæri afhenti fjölskylda Gunnars Magnússonar, húsgagnaarkitekts, Hönnunarsafninu eintak af ruggustól Helga til varðveislu. Gunnar og Helgi voru vinir og samstarfsmenn við Iðnskólann í Reykjavík í áratugi.


No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.