Wednesday, January 9, 2013

Eames árin 2011-2012

Charles og Ray Eames
Undanfarin ár hefur umfjöllun um hjónin Charles og Ray Eames verið dreifð um vefinn á síðum áhugamanna sem oft hafa úr takmörkuðu efni að moða - og takmarkaðan tíma. Síðurnar hafa því verið einhæfar og oft spegilmyndir hvor af annarri, þar sem mest er fjallað um húsgögn en minna um aðra listsköpun hjónanna, en verkefni þeirra voru margvísleg, spelkur, húsgögn, myndavélar,  byggingar, sýningar og kvikmyndir, svo fátt eitt sé nefnt.
Árin 2011-2012 hafa verið Eames aðdáendum einstaklega gjöful og boða verulega breytingu á aðgengilegu efni um hjónin og hönnun þeirra.

Trailer fyrir "Eames: The Architect and the Painter"
Fyrst er að telja heimildamyndina "Eames: The Architect and the Painter" sem var frumsýnd 2011. Myndin fjallar um  persónurnar, starfsfólkið á teiknistofunni verk þeirra og vinnuaðferðir. Það er heillandi að fylgjast sköpunargleði hjónanna og kynnast því hvernig þau unnu saman í lífi og leik. Allt virðist hafa orðið þeim tilefni til sköpunar - það sannar dæmið um eftirréttinn sem þau báru fram í matarboði; hann átti ekki að snæða heldur bara horfa á og njóta fegurðar hans.
Myndin fæst nú á Amazon fyrir 25 dollara. Amazon segir diskinn vera fyrir USA eingöngu en sá sem ég fékk virðist ganga á alla DVD spilara. Mæli eindregið með myndinni sem er rúmlega 85 mínútna löng. Fínt fyrir vinnustaðinn að kaupa eina fyrir starfsfólkið.
Ný vefsíða: eamesdesigns.com, kom á netið 2011 og hefur verið í stöðugri þróun. Þar finnst á einum stað flest sem skiptir máli, m.a. nokkrar stuttmyndir sem hjónin gerðu en þær voru a.m.k. 125. Þarna eru ennfremur margir áhugaverðir tenglar.  Myndbönd af ýmsu tagi má svo nálgast á Collecting Eames á Youtube.

Í byrjun 2013 var opnuð vefsíðan eameshouse250.com til að safna fé fyrir framkvæmdum við íbúðarhús Eames hjónanna. Áætlað er að 150.000- dollara þurfi til að koma húsinu í ásigkomulag sem endist næstu 250 árin. Þarna er að finna upplýsingar um verkefni hjónanna í tímaröð og nokkrar frábærar stuttmyndir þeirra. 
Forfallnir aðdáendur hjónanna ættu að verða sér úti um bækur hjónanna Marilyn Neuhart and John Neuhart "The Story of Eames Furniture" og "Eames Design" sem eru samtals rúmar 1200 blaðsíður og segja allt um Eames og hlutina þeirra - hinir, sem vilja fallega bók á stofuborðið, ættu að skoða "Eames: Beautiful Details" frá 2012 .

Myndirnar eru af vefnum pacificstandardtime.org. Til gamans setti ég þær upp í tímaröð. Af myndinni má læra hvað hjónin hafa að verið að fást við um árin. 1935-'45 er það viður, 1946- '50 stál, 1953-'56 trefjaplast og formbeygt tré og við taka ál árin 1958-'71 og síðan afturhvarf í trefjaplast. Nánar má lesa um hvern stól hér.



No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.