Thursday, February 21, 2013

Barcelona stóllinn

Barcelona stóllinn dregur nafn sitt af því að hann var hannaður fyrir sýningarsvæði Þjóðverja á Heimssýningunni í Barcelona árið 1929. Arkitektinum Mies van der Rohe var falið að hanna stól sem hæfði jafnt konungi, svikara eða sendiherra. Hönnunin mætir vafalaust þessum kröfum þó deila megi um hvort svikara hæfir jafn fínn og dýr stóll og þessi. Sumir svikarar hafa þurft að setjast í óþægilegri stól sem enginn situr nema einu sinni í. 
Vandlega pólerað stál og 72 skrúfur
Flest húsgögn Mies van der Rohe eru þung og krefjast mikillar vinnu við smíðina.  Þessi stóll gefur ekkert eftir hvað það varðar, pólerað gegnheilt stálið, sem myndar Xlaga stell, er haglega soðið saman, slípað og pólerað. Sjötíu og tvær skrúfur þarf til að festa borðana undir setunni og seta og bak er handsaumað úr fjörutíu einingum af leðri. Fyrir utan smávægilegan saumaskap undir setunni er stóllinn handsmíðaður. Útlit stólsins gefur ekki þessa miklu vinnu til kynna við fyrstu sýn en ef vel er að gáð, skoðað undir púða, stólnum velt við og forvitni svalað skilur maður þetta betur.
Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á framleiðsluháttum, stellið er nú úr ryðfríu stáli og setan úr svampi í stað hamps og hrosshára. Hvort tveggja gerir stólinn endingarbetri svo það bitnar ekki á gæðum hans. 
Aðalframleiðandi Barcelona stólsins er Knoll en margar eftirlíkingar eru framleiddar. Allskonar málaferli hafa verið í gangi vegna stólsins og er þar ýmist Knoll að stefna vegna eftirlíkinga eða einhver að stefna Knoll til að fá úr því skorið hvort 50 ára tilkall til höfundarréttar sé ekki liðið.

Barcelona stóll með skammelli



No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.