Monday, March 14, 2011

Náttúrufræðistofnun - nýtt hús og gersemar

Hús Náttúrufræðistofnunar í Urriðaholti • Hönnun: Arkís
Náttúrufræðistofnun sýndi landsmönnum nýja húsið sitt í Urriðaholti á laugardaginn (5/3/2011). Þangað komu næstum 4000 manns þrátt fyrir grenjandi rigningu og slagveður sem gerði menn næstum gegndrepa á leið milli bíls og húss. Óveðrið hafði þó þann kost að tækifæri gafst til að meta áhrif glerhjúpsins sem er utan á byggingunni og ekki var annað að sjá en að hann virkaði vel a.m.k. stóðu flestir gluggar opnir og létu sér lítið finnast um slagveðrið fyrir utan. Ég ímynda mér að á sólskinsdegi varpi  mynstrið á glerinu margbreytilegum skuggum inn í húsið. Gaman væri að koma aftur við slíkar aðstæður.
Að innan er umhverfið látlaust og bjart, litir eru ljósir og óvæntur litur við stigana virkar fínt. Húsið er skorið í sundur af tveimur gjám þannig að úr verða þrjár einingar og stigahúsin mynda brú á milli þeirra.  Þetta gengur vel upp og það er skemmtilegt að ganga bygginguna á enda og upplifa húsin þrjú sem eru hvert með sínu lagi. Þetta verður góður vinnustaður. 
Mikið var gleðilegt að sjá húsgögnin sem Náttúrufræðistofnun hefur flutt með sér í húsið. Þar eru margar gersemar og skilst mér að meira sé að finna í geymslum þrátt fyrir að töluvert hafi farið á Hönnunarsafnið.  Starfsmenn vissu heilmikið um húsgögnin og um þau spunnust skemmtilegar umræður m.a. vangaveltur um hvort þessi húsgögn hefðu varðveist ef stofnunin hefði haft efni á að kaupa nýtt á undanförnum árum. Það þarf reyndar að íhuga vel hvernig svona hlutum er stillt upp til að þeir njóti sín en mér sýnist þau vera að vinna í því t.d. eru nokkrar skrifstofur að taka á sig nútímalega 60's mynd. Náttúrufræðistofnun á lof skilið fyrir að varðveita húsgögnin og bjóða Hönnunarsafninu þau sem ekki eru notuð. Til hamingju með nýju heimkynnin.
Ég læt nokkrar myndir, sem ég tók í gegn um glugga því skrifstofurnar voru læstar, fylgja með ásamt vangaveltum um uppruna þess sem þær sýna.

Mynd 1. Innanstokksmunir og gersemar.
Efst: Skrifborð (1950-1960) framleiðandi: Gamla Kompanýið eða Kristján Siggeirsson. Ofan á borðinu eru kassar með flugum sem vildu endilega vera með á myndinni.
Miðja: 1. Hurð og gluggi að skrifstofum. 2. Tekk skrifborð og stóll (mynd 4). 3. Gamlar skúffur, liturinn bendir til að þær séu eftir Guðmund Kr. Kristinsson. 4. E60 stóll (framleiddur frá 1960 og ennþá vinsælasti stóll fyrirtækisins) frá Sóló Húsgögn. 
Neðst: 1. Stóll (mynd 2). 2. Innrétting (1963-1965), tekk, málaðar hliðar og stálprófill, hönnun: Guðmundur Kr. Kristinsson.  3. Stóll  (mynd 4).

Mynd 2. Skrifstofa (sama rými og á mynd 3).
Þetta er fínn stóll, flatstál, hvítar plastreimar, seta og bak með Salon áklæði frá Ullarverksmiðjunni Álafoss. Ég hafði samband við Hönnunarsafn Íslands til að grennslast fyrir um hönnuðinn. Harpa Þórsdóttir svaraði mér og segir stólinn án efa vera eftir bræðurna Jón (1916-2003) og Guðmund Benediktssyni (1920-2000), þeir hafi oft notað stál og plastreimar eins og í þessum stól, safnið á einnig útistóla eftir þá.



Mynd 3. Skrifstofa (sama rými og á mynd 2).
Staflanlegur stóll (1955+): 14 mm rör, tekk bak, seta með Salon áklæði frá Ullarverksmiðjunni Álafoss, hönnuður Jón Benediktsson (1916-2003), sennilega framleiddur hjá Stálhúsgögn. Skrifborð: tekk og stálprófill, málaðar hliðar á skúffum, Guðmundur Kr. Kristinsson. Skáparnir eru, eins og önnur nýrri húsgögn, Seria skrifstofuhúsgögn frá Á. Guðmundsson.

Mynd 4. Vinnurými / skrifstofa.
Stólar (1950-1960) sennilega frá sama stað og skrifborðið á mynd 1. Skrifborð: Undirstaða úr stálprófil, sýnilegur viður tekk, borðplata fest með messing hettuskrúfum, upphaflega framleitt hjá Helga Einarssyni en síðar hjá Á. Guðmundsson. Hliðarborð: Tekk og 15 mm stálteinn, Guðmundur Kr. Kristinsson. (1925-2001). Til hægri glittir í samskonar innréttingu og á mynd 1, eftir Guðmund.


Mynd 3. Skrifstofa.
Um stólinn veit ég lítið annað það að hann er ákaflega fallegur, stílinn mætti kenna við danska hönnuði. Ólíklegt er að hann sé smíðaður hér á landi. Borðið er samstætt við skrifborðið á mynd 1.

Mynd 4. Skrifstofa.
Þessi stóll er ekki mjög gamall en hann sómir sér vel með Seria skrifborðinu þó hann sé ekki alveg samkvæmt nýjustu tísku. 
Mynd 5. Skrifstofa.
Stóll (um 1970) úr krossviði, hönnuður Þorkell Guðmundsson, framleiðandi Á. Guðmundsson. Seria 2 skrifborð frá sama framleiðanda.


No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.