Monday, April 4, 2011

Húsgagnasýning í Tækniskólanum og John Makepeace hönnuður/handverksmaður

Frá sýningu nemenda í húsgagnasmíði við Tækniskólann


Í fyrra héldu nemendur Tækniskólans í húsgagnasmíði sýningu á stólum sem þeir höfðu smíðað út frá stólum þekktra hönnuða. Nemendurnir höfðu flestir valið sér stóla sem vandasamt er að smíða og skiluðu verkinu með miklum sóma. Hönnun og húsgagnasmíði haldast í hendur, hönnun skipar töluverðan sess í smíðanáminu og áhugi nemendanna á hönnun jafnt sem smíði var augljós. Fullt tilefni til er til að minna á að höfundarétt skal virða en ekki veit ég hvernig þeim málum var háttað í þessu verkefni.
Það er fagnaðarefni að nemendum í húsgagnasmíði hefur fjölgað því stéttin var orðin hættulega fámenn, vonandi heldur þessi þróun áfram. Mikið væri gaman ef einhverjir þessa nemenda settu upp hönnun / handverk verkstæði, ég er viss um að það gæti gengið og það væri frábært innlegg í þær hræringar sem nú eiga sér stað í hönnun og handverki hér heima. 

"Phoenix" stóll
eik og álmur
John Makepeace (f.1939) gerði einmitt þetta - lærði húsgagnasmíði og setti upp smíðastofu í Oxford árið 1957. Til að byrja með smíðaði hann innréttingar og húsgögn fyrir einstaklinga og arkitekta en hannaði jafnframt smáhluti sem seldir voru í Harrod's, Liberty og Heals verslununum í London. Salan gekk vel og að beiðni Liberty bætti hann við nokkrum hlutum m.a. borði með glerplötu, sem hægt var að leggja saman. Borðið seldist svo vel að brátt annaði hann vart eftirspurn þó afgreidd væru mörg hundruð borð. En fjöldaframleiðsla af þessu tagi heillaði hann ekki, hann seldi því starfsemina og kom sér upp lítilli smíðastofu þar sem hann gat helgað sig hönnun og sérsmíði húsgagna að hætti handverksmanna. Húsgögn hans féllu í góðan jarðveg, honum voru falin áhugaverð verkefni og innan tíðar var hann kominn með átta smiði í vinnu. Í dag eru þrír smiðir og einn hönnuður í vinnu hjá Makepeace, sem er 72 ára gamall, og í þurrkhúsinu við smíðastofuna hans bíða 100 trjástofnar eftir að verða að húsgögnum í höndum meistarans. Nokkur verk Makepeace eru nú sýnd á farandsýningu í Bretlandi.

Árið 1977 stofnaði Makepeace skólann " Parnham College of Furniture-Making". Skólinn átti veigamikinn þátt í að endurvekja hönnun / handverk húsgagnasmíði í Bretlandi, sem vélvæðingin hafði næstum útrýmt. Bretar fullyrða að ef John Makepeace og Parnham College hefði ekki notið við væri tími breskra hönnuða / handverksmanna á sviði húsgagna liðin. Árið 1988 eignaðist skólinn skóglendi sem hann hugðist nýta. Nýstárlegt hús hannað af arkitektinum Frei Otto var reist þar en skömmu eftir að Makepeace hætti störfum árið 2001  var skóglendið og húsið afhent AA arkitektaskólanum í London, sem nú er að hefja mjög spennandi starf á staðnum, sjá hér. Af nemendum við Parnham skólann má nefna Konstantin GrcicSean Sutcliffe, Sarah KayAndrea StemmerJake PhippsMark BoddingtonDavid Linley.


"Trine" stóll, ýviður og 5000 ára gömul "Bog" eik úr mýrum í Suður-Englandi.
"Embrace" stóll úr harðhnotu (hickory).
"Vine" stóll og "Engilsh Fruits" borð úr lituðum sítrusviði.
"Throne" stóll úr 
sítrusviði, lakkaður og póleraður.

"Obelisk" olíuborinn ýrviður.  -  "Zebra" skápar úr kristþyrni (Holly) og svartri eik.

"Yew Leave" borð og Spring stólar úr ýviði (Yew).
"Leave" borðin eru fleiri og bera sama nafn og viðurinn sem þau eru smíðuð úr.
Smærri mynd sýnir kopar innfellingu í borðplötu.
.
.

No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.