Sunday, October 9, 2011

Stólafjör - Börnin í Valhúsaskóla hressa upp á umhverfið

Börnin í 7. bekk Valhúsaskóla unnu skemmtilegt og fræðandi verkefni í fyrra. Eftir margra ára notkun voru stólarnir í mötuneytinu orðnir snjáðir, illa farnir og langt frá því að vera augnayndi. Upp kom sú hugmynd að nemendurnir gætu sjálfir lappað upp á þá.  Móa og Ásta, kennarar í myndmennt og textíl, fræddu börnin um  endurnýtingu, sýndu þeim listaverk, nytjahluti og annað sem tengja mátti verkefninu. Í hópvinnu skiptust börnin á hugmyndum, ákváðu þema og hófu framkvæmdir. Efniviður kom úr safnveitu skólans en í hana fara endurnýtanlegir hlutir sem til falla - taubútar, plastdósir, pappír, bönd o.fl. frá allri starfsemi skólans m.a. skrifstofu og mötuneyti. Árangurinn er glæsilegur - 15 flottir stólar, hver með sitt nafn,  sem geta hresst upp á mötuneytið svo um munar. 
Mikilvægast er þó að hér tóku börnin þátt í að móta umhverfi sitt, fræðast um ýmislegt sem máli skiptir við mótun þess og þau gripu til aðgerða - og tókst frábærlega til. Enginn er of ungur eða gamall til að taka virkan þátt í að móta umhverfi sitt. Til marks um það má benda á smíðavelli barnanna sem hressa upp á umhverfi okkar á sumrin - stórkostleg og óheft byggingarlist -  öllum til gleði, ungum sem öldnum.
Á menningarhátíð Seltjarnarness 2011 var sett upp sýning á stólunum -"Stólafjör" - í Bókasafni Seltjarnarness og vöktu þeir mikla lukku. 



Kærar þakkir til Ástu og Móu fyrir myndirnar. Hönnun & hlutir ber ábyrgð á skuggunum skrítnu sem fylgja stólunum;-)

No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.