Saturday, September 17, 2011

Gingko stóllinn - innblásinn af laufblaði

Gingko -  Margir möguleikar: viður, bólstur, tré- eða málmfætur
Eins og lauf í vindi
Skelin þynnist út til hliðanna

Áhugafólk um húsgagnahönnun kippir sér ekki upp við að einhver segi "Það eru Skötur í barnaherbergjunum hjá okkur og Maurar í eldhúsinu". Þeir vita strax að átt er við "Skötu" Halldórs Hjálmarssonar og "MaurArne Jacobsen en ekki fisk og pöddu. Stólar sem bera nafn sem augljóslega tengist formi þeirra verða oft afar persónulegir. Skemmtilegt.
Stóllinn sem hér er sýndur er nefndur eftir Gingko trénu. Form hans er innblásið af laufum trésins. Symetriskt bakið og setan, sem hvílir létt ofan á grindinni, gera hann afar léttan ásjónu - eins og lauf í vindi. Lárétt stefna viðarins  ítrekar sveigjuna enn frekar og auk þess þynnist viðurinn út við brúnirnar. Þetta er fjölnota stóll sem hægt er að setja saman á fjölbreyttan hátt með viðar- eða málmfótum, ýmsum viðartegundum og bólstri. Það kæmi ekki á óvart að þessi yrði klassík þegar fram líða stundir.


Gingko lauf


Hönnuðir Gingko eru Þjóðverjarnir Jehs + Laub. Þeir félagar  kynntust sem lærlingar á teiknistofu í New York 1990. Þeir hófu samstarf 1994, hafa átt mikilli velgengni að fagna og unnið fyrir marga þekktustu húsgagnaframleiðendur heimsins.
Framleiðandi Gingko er DAVIS í Bandaríkjunum.
Gingko hlaut silfurverðlaun á Neocon sýningunni í Chicago 2011.



Gingko - Verður hann klassík þegar fram líða stundir?

Claude Lallane
Gingko stóll, brons, 2001


Franska listakonan Claude Lalanne (f. 1924) heillast líka af Gingko laufi. Laufið hefur verið henni innblástur margra muna m.a. þessa stóls. Meira um hana seinna.
Hér er fróðlegur pistill um Gingko Billoba tréð. Þar segir m.a.:

"Ginkgo Biloba, sem heitir á íslensku Musteristré, hefur yfir sér ákveðna dulúð og það ekki að ástæðulausu. Tréð er þjóðartré Kínverja en var áður talið útdautt af vestrænum vísindamönnum. Talið er að sum trjánna - sem standa við kínversk musteri - séu yfir 1.500 ára gömul en líklega geta þau orðið um 3.000 ára gömul. Búddamunkar hafa lengi ræktað Musteristré og eiga einna stærstan þátt í að viðhalda stofninum. Sagan segir að Konfúsíus hafi helst kosið að halda fyrirlestra og kennslu við trén. Lauf trésins hafa lengi verið notuð í lækningaskyni" (Styttur úrdráttur úr grein á vef Ölgerðarinnar)




No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.