Thursday, October 11, 2012

40 stólar 120 sentimetrar



40/4 - Það tók 10 ár að þróa hann og sannfæra einhvern um ágæti hans
David Rowland (1924-2012) var 16 ára gamall þegar hann hóf listnám við Institute of Design í Chicago, skóla sem upphaflega var nefndur The New Bauhaus. Þremur árum síðar kallaði herskyldan og hann þjónaði sem orustuflugmaður í Evrópu 1943-45. Þá snéri hann aftur heim lauk náminu og starfaði um tíma hjá Norman Bel Geddes, fyrsta iðnhönnuði Bandaríkjanna.
Fallegur stafli
40 stólar 120 sm á hæð
Rowland hafði sérstakan áhuga á stólum og notaði frístundir til að sinna þessu áhugamáli sínu. Hann hafði slæma reynslu af því að sitja í 12 klukkustundir samfellt í óþægilegu sæti orustuflugvélar og einsetti sér að hanna þægilegan stól. Hann smíðaði módel af stól sem hann sýndi Florence Knoll hjá húsgagnafraleiðandum Knoll en hún hafnaði stólnum kurteisislega. 
Ekki gafst hann upp heldur reyndi í nokkur ár að hanna stóla sem féllu að smekk Knoll en þeim var öllum hafnað. Þá kom honum til hugar að hanna stól sem hefði á einhverju sviði yfirburða tæknilega eiginleika sem heilla myndu Knoll, frekar en útlitið eitt. Niðurstaðan varð staflanlegur stóll með stelli úr grönnum teinum. Hér var kominn stóllinn 40/4 sem dregur nafn sitt af því að stafli 40 stóla er 4 fet á hæð. Þennan stól ákvað Knoll að taka til framleiðslu en hætti svo við, eina ferðina enn. 
Tíminn líður - á húsgagnasýningu hittir Rowland fyrrum sölustjóra Knoll sem sýnir stónum 40/4 mikinn áhuga. Úr verður að hann kynnir stólinn fyrir arkitektum nýrrar háskólabyggingar, sem heillast af honum og kaupa 17.000 stóla í háskólann. Þetta ferli hafði tekið átta ár en nú var sigurför 40/4 hafin og á ríflega 50 árum hefur hann selst í miljónum eintaka. Sjálfur sagðist Rowland hafa hætt að telja þegar hann fór yfir 5 milljón stykkja markið.
Í sal Mentaskólans við Hamrahlíð voru keyptir 40/4 stólar og eru þeir þar ennþá þótt sumir þarfnist smá viðhalds. Því miður voru ekki keyptir samskonar stólar þegar stólum í salnum var fjölgað. 
40/4 í öllum regnbogans litum
Grind 40/4 er gerð úr 11 mm stálteinum. Seta og bak var upphaflega úr stáli en er í dag gerð úr viði. Það er einstaklega þægilegt að sitja í stólnum, hann heldur vel við og hallar rétt. Á einfaldan hátt er hægt að festa stólana saman í röð, einnig fást á hann handhægar borðplötur - smellpassar fyrir spjaldtölvuna þrátt fyrir aldur stólsins - og grindur til að geyma ýmislegt í.


Framleiðandi: Hove




No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.