Monday, October 1, 2012

Hönnunarsafnið í London

Gamla bananageymslan var heldur óáhrjáleg, en Bauhaus stíll þess kom í ljós þegar Terence Conran hafði farið um það höndum
Design Museum í London er fyrsta safnið sem helgað er hönnun 20 og 21 áratuganna. Það var stofnað árið 1989 og er staðsett í gamalli bananageymslu suðurbakka Thames, þar sem eitt sinn var blómlegt viðskipta- og hafnarstafssemi, sem var í mikilli niðurníðslu þegar safninu var ákveðin þar staður. Nú hefur þetta hverfi að mestu verið endurbyggt og aðkoma að húsinu, sem er í Bauhaus stíl, er góð. 
Það er skemmtilegt að gefa sér tíma til að  ganga sunnanmegin með ánni, t.d. frá Westminster brúnni, að safninu - jafnvel hægt að taka bát til baka eða ennþá lengra niður ánna. Þeir sem hafa góðan tíma geta komið við í Tate Modern sem er í gömlu orkuveri á leiðinni, þó ekki væri nema til að setjast aðeins niður í gamla vélarýminu. Annars er næsta lestarstöð Tower Hill og þaðan er gengið yfir Tower Bridge, sem er líka skemmtilegt. Austan við Tower Bridge leynist St.Katharine Docks, kyrrlát vin með fallegum snekkjum og ágætum veitingahúsum.
Ráðgert er að 2014 muni safnið flytja í sögufræga byggingu Samveldisstofnunarinnar (Commonwealth Insitute) í Kensington. Þar mun fara betur um starfsemi þess og mögulegt verður að hafa standandi sýningu á munum í eigu safnsins, en til þess er ekki rými í húsinu við Thames. Í Kensington er safnið nálægt Mekka margs hönnunarnemans: Royal College of Art.
Design Museum er sjálfseignarstofnun, rekið með styrkjum og ágóða af starfseminni. Þetta hefur ekki hindrað það í að setja saman viðamikið fræðsluefni fyrir almenning og námsfólk. Sérstaklega má þar nefna fræðsluefni fyrir grunnskóla, sem er einstakt og hefur tengt safnið almennri fræðslu. Það er því ekki síðra að koma í safnið á skólatíma og fylgast með unga námsfólkinu meðtaka umhverfið á þann hátt sem aðeins börnum er gefið. Sönn opinberun. 


Framtíðarsýn -Nýja safnið í Kensington í sögufrægri byggingu frá 1960 mun breyta miklu.
Á pallinum (til hægri) er nú ýmsu áhrifafólki boðið til kvöldverðar í fjáröflunarskyni, en hann er auðvitað ekki svona fínn í núverandi ástandi.


No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.