Tuesday, June 4, 2013

Nanna Ditzel - kona í starfi karla.

Barnastóllinn - uppáhalds stóllinn minn - var hannaður 1955 og upphaflega framleiddur úr Oregon furu en síðar úr beyki. Hann er því miður ekki framleiddur í dag en fæst á uppboðsmörkuðum fyrir 600-700 evrur.




Nanna Ditzel (1923-2005) var ein örfárra kvenna sem starfaði við húsgagnahönnun í Danmörku um miðja tuttugustu öldina en á þessum árum voru það aðallega karlar sem unnu það starf. Nú er öldin önnur og fleiri konur en karlar útskrifast á sviðum tengdum húsgagnahönnun. Til marks um þetta er Félag húsgagna- og innanhússarkitekta þar sem konur eru í miklum meirihluta og fjölgar stöðugt. Enn óvenjulegra á þessum árum var að Nanna lærði húsgagnasmíði áður en hún hóf nám í húsgagnahönnun við Listiðnaðarskólann í Kaupmannahöfn, þaðan sem hún útskrifaðist árið 1946  - aðeins 23 ára gömul.
Hún stofnsetti þegar í stað teiknistofu með eiginmanni sínum Jörgen Ditzel. Hann lést, aðeins 40 ára að aldri árið 1961 og næstu árin starfrækti Nanna teiknistofuna ein, ásamt því að ala upp þrjú börn, til ársins 1968 en þá flutti hún til London og giftist á ný. í London stofnuðu þau hjónin listmuna- og húsganaverslunina Interspace í Hampstead - verslun sem er hönnuðum í Bretlandi af góðu kunn - og Nanna sinnti áfram hönnunarstafinu. Dvölin í London varð 15 ár en hún flutti aftur heim til Danmerkur þegar eiginmaður hennar lést árið 1985. Þar starfaði hún til dauðadags árið 2005 - þá 82 ára. 
Nanna Ditzel var öflugur hönnuður, tilbúin til að takast á við ögrandi verkefni og kanna nýjar leiðir í efnisnotkun og tækni. Trefjaplast, keramik, vefnaður, gúmmí, silfur og gull - allt lék þetta í höndum hennar og verkefnalistinn var langur. Til dæmis má nefna að hún hannaði 150 hluti fyrir Georg Jensen samtímis því að sinna húsgagnahönnun ötullega.  Mörg verk hennar eru í framleiðslu og fyrir löngu orðin klassísk  t.d. hefur Hallingdal áklæðið, eitt vinsælasta áklæði í Evrópu, verið framleitt í 58 litum frá árinu 1964.
Stíll Nönnu var fágaður og einkennist af öryggi og þekkingu á efninu sem unnið er með. Vafalaust kemur þar að einhverju til  kvenlegt innsæi en ljóst er að þekking hennar á húsgagnasmíði átti þar stóran þátt - þess bera smáatriðin sem hún nostraði við merki. Engu er ofaukið í hönnun hennar og á seinni árum urðu form og efnisnotkun einfaldari og efnisminni svo jaðrar við minimalisma án þess þó að falla beinlínis undir þá skilgreiningu, manni verður ósjálfrátt hugsað til japanskrar hönnunar. Fáeinar myndir segja auðvitað lítið um svo yfirgripsmikið ævistarf en á vefnum Nanna Ditzel má sjá hve víða hún kom við.
Bekkur fyrir tvo (Bænk fo to),  samvinnuverkefni með Fredericia árið 1989, vann japanska samkeppni 472 húsgagna. Bekkurinn er smíðaður úr örþunnum (1.5mm) flugvélakrossviði  með silkiprentuðum röndum. Rendurnar ljá bekknum munstur sem virðist vera á stöðugri hreyfingu.
Vel þekkt húsgagn Nönnu er þetta borð frá 1958. Það var framleitt í þremur viðartegundum með þremur og fjórum skúffum. Svona borð eru seld fyrir 7-9000 dollara á uppboðsmörkuðum í dag.

Oda stólinn hannaði Nanna með Jörgen eiginmanni sínum árið 1953. Viðar armarnir setja afar sérstakan  svip á stólinn en fyrirkomulag þeirra gerir að það verkum að stóllinn umfaðmar notandan á óvanalegan hátt. Árið 2001 var framleiðsla Oda stólsins hafin á ný hjá Brdr. Petersens

Tappatogari 1957. Hannað fyrir Georg Jensen 1957. Handfangið reyndist svo þægilegt að sama lag var notað á aðalhurð verslunar Georg Jensen í Östergade.


Trinidad stóllinn er í dag eitt af söluhæstu húsgognum Nönnu, mánaðarlega seljast meira en 1000 eintök af honum. Mynstið og nafnið er innblásið af útskurði sem heillaði Nönnu í Trinidad. 
Hangandi körfustóll Nönnu og Jörgens er stundum kallaður "Egg stóll" enda gefur formið tilefni til þess. Hann er teiknaður árið 1959 og getur ýmist hangið í lofti eða á sérstakri málm grind.

Copenhagen bekkinn má sjá víða en alveg örugglega í Tívoí. Hann er úr steypujárni og tekk og framleiddur í dag hjá Forms´Surfaces.



No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.