Sunday, June 9, 2013

"Bowl Chair" endurborinn.



Ítalsk-brasilíski arkitektinn Lina Bo Bardi hannaði "Skálar stólinn" (Bowl Chair) árið 1951 fyrir húsið sitt í Brasilíu. Á teikningu virðist stóllinn einfaldur - aðeins fimm línur -  sætisskálin er hálfhringur , undirstaðan lárétt lína og tvær skásettar fyrir fæturna. Sagt hefur verið að skálin sé í raun innblásin af kókoshnetu. Í einfaldleika sínum er þetta samt margbrotinn stóll og krefst smíði hans mikillar vinnu,  til dæmis var skálin smíðuð úr málmi sem var mótaður með því að hita hann og berja til - eins og í eldsmiðju.

Lina skildi ekki eftir sig nákvæmar teikningar  eða mál af  stólnum og þegar húsgagnaframleiðandinn Arper fékk leyfi til að smíða 500 eintök af honum í tilefni sýningar á verkum Linu var honum vandi á höndum. Spurningin var þessi: Hvernig er hægt að smíða hluti með nútíma tækni en vera samt trúr frumútgáfunni og hönnuðinum. Niðurstaða Arper var að ef formið og notagildið er það sama og í frumútgáfunni sé í lagi að aðlaga smíðina að nýrri tækni og byggir Arper niðurstöðu sína m.a. á tilvitnun í Linu: „Að staðla er að útvíkka möguleika - að gefa fjöldanum kost á því sem ella væri eingöngu fáeinum aðgengilegt". 

Málmlskelin hefur því vikið fyrir skel úr plasti og svampi og nútíma aðferðir eru notaðar til að sníða og sauma áklæðið, þó alltaf fylgi því töluverð handavinna. Eftir þetta er áferð stólsins fínlegri, áklæðið situr betur og samsetningar eru gallalausar. 

Vafalaust sýnist hreintrúarfólki sitt hvað um þessa niðurstöðu en víst er að stóllinn er afar fallegur og notagildi hans hefur ekkert breyst, ennþá er skelin laus ofan á undirstöðunni og því hægt að hreiðra um sig í henni á margvíslegan hátt, hallandi,  lárétt eða eins og hverjum hentar. Og svo er hann einstakt augnayndi.

Lina Bo Bardi var fjölhæfur listamaður sem fékkst meðal annars við arkitektúr, húsgögn, leikhús, myndskreytingar og sýningarstjórn. Hún var ein þeirra kvenna sem vann í skugga karlana, sem drottnuðu yfir öllu sem hönnun snerti og eignuðu sér meira að segja verk kvennanna sem unnu með þeim, en hún lét eftir sig glæsileg verk eftir farsælan feril. Sýningin á verkum hennar er skref í þá átt að rétta hlut kvenna sem fengust við hönnun á þessum tíma.
Skálarstóllinn "Bowl Chair" ótrúlega einföld en rökrétt form.
Skálin situr laus ofan á undirstöðunni og henni má snúa á alla vegu -  og hún staflast.
Teikning Lina Bo Bardi. Fimm línur duga til að teikna hliðarmynd af stólnum en það má sjá að ýmislegt hefur verið hugsað á annan hátt en á endurgerðinni t.d. frágangurinn að ofan
Fallegur hvar sem á hann er litið


No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.