Wednesday, February 16, 2011

Níu stólar, 9 sögur



Það er svo merkilegt með stóla - við getum sent menn til tunglsins, en erum samt ennþá að bralla við að hanna stóla. Geimferjan Discovery hefur dugað í 25 ár, stóll sem lifir svo lengi má vera ánægður með sig, hvað þá ef hann verður eldri. Margir stólar frá bernsku modernismans bera aldur sinn vel og plast stólar frá 1950-60 eru enn í góðu gildi. Það var ekki sjálfgefið að hægt væri að framleiða suma stólana og oft liggur áhugaverð saga að baki þeim. Ég tók saman nokkrar slíkar um stólana sem hér eru sýndir. Vona að einhver hafi gaman af, stólarnir eru allavega stórmerkilegir. 

Harry Bertoia (1915-1978)
Diamond Chair 1952   •   Harry Bertoia (1915-1978)
Harry Bertoia vann með Eames og Knoll hjónunum í nokkur ár, hann var menntaður í skartgripa og málmsmíði og stafaði við það lengst af. Diamond Chair, sem Bertoia gerði fyrir Knoll, er hluti af húsgagnalínu sem hann vann  að í tvö ár. Smíðuð voru tæki til að framleiða stólinn en þau virkuðu ekki vel og  einfaldara var að handsmíða hann. Sessan sem oftast er sett í stólinn breytir þeim eiginleika sem Bertoia lagði mest upp úr - að stóllinn væri algjörlega gegnsær og nánast svífandi - eigi að síður virkar hann afar léttur.
Framleiðandinn: Knoll      •      Hönnuðurinn: Harry Bertoia

 Eero Aarnio (1932-)
 Ball Chair 1963  •   Eero Aarnio (1932-)
Aarnio hjónin vantaði stól fyrir fyrsta heimili sitt, Eero gerði nokkrar skissur og komst niður á þetta form. Til að gera sér grein fyrir hvort það virkaði festi hann teikningu í fullri stærð á vegg og "settist" í stólinn. Frúin dró svo línu umhverfis höfuð hans og þannig var innanmálið ákveðið. Sniðið í kúluna tók svo mið af því að stóllinn kæmist í gegn um venjulegt dyraop. Frumgerðina smíðaði hann sjálfur úr trefjaplasti á mót sem gert var úr krossviði og strekktum pappír, eins og vængur svifflugu. Frumgerðin er ennþá til á heimili hans.
 Bubble Chair 1968   •   Eero Aarnio (1932-)
Fimm árum síðar gerði Eero Bubble Chair úr glæru plasti sem blásið var eins og sápukúla og hékk í lausu lofti. Stólarnir eru, þrátt fyrir kúluformið, andstæður. Annar þeirra einangrar notandann frá umhverfinu en hinn gerir notandann að hluta þess. Bubble Chair er frábært dæmi um "minna er meira" hönnun.
Framleiðandinn: Adelta      •      Hönnuðurinn: Eero Aarnio

Charles (1907-1978) & Ray Eames (1912-1988)

Lounge Chair 1956   •   Charles (1907-1978) & Ray Eames (1912-1988)
Charles and Ray Eames sáu fyrir sér mjúk form en þau vantaði efni til að gera þau úr. Því leituðu aðferða til að móta stóla úr formbeygðum viði og smíðuðu til þess vél sem þau nefndu "Kazam." Þeim tókst að beygja krossvið á viðunandi hátt og smíðuðu fyrsts stólinn 1945, hann hét "Potato Chip."
Lounge Chair var um tíma smíðaður úr palesander en er nú gerður úr kirsuberjarviði. 
 DAX Chair 1948      •      Charles (1907-1978) & Ray Eames (1912-1988) 
Stóllinn DAX var hannaður fyrir samkeppni um ódýr húsgögn sem MOMA safnið í New York hélt árið 1948. Markmið samkeppninnar var að fá fram nýjar aðferðir til að framleiða ódýr húsgögn.  Eames hjónin fengu verkfræðideild Kaliforníuháskóla í lið með sér og niðurstaðan varð stóll sem settur var saman úr tveimur einingum. Í stólinn var notað stál sem var formað eins og í bifreiðaframleiðslu. Stólskelin var svo húðuð með mjúku plastefni til að hún væri ekki eins köld viðkomu. Þau gerðu tvær tillögur; La Chaise og Dax og hlutu önnur verðlaun. Stóllinn var aldrei framleiddur á þennan hátt, hann var of þungur og mótin entust illa, Herman Miller tókst svo að móta stólinn úr trefjaplasti og þannig er hann framleiddur í dag.
Stóllinn sem hannaður var fyrir samkeppni 1948 hefur eignast marga bræður.
Framleiðandinn: Herman Miller       •      Hönnuðirnir: Charles & Ray Eames


Eero Saarinen (1910-1961)
Tulip Chair 1956   •  Eero Saarinen (1910-1961)
Form stólsins getur verið hvort sem er túlípani eða vínglas. Saarinen vildi gera stól sem steyptur væri í heilu lagi - "eitt stykki, eitt efni". Saarinen hafði ákveðna hugmynd um hverju hann vildi ná fram með stólnum - hann vildi losna við "frumskóg" stólfóta og hanna stól sem gæti snúið hvernig sem er án þess að skapa óreiðu í rýminu. Út frá þessum forsendum þróaðist Túlipaninn (vínglasið) og borðið sem honum fylgir. Stóllinn var notaður í Star Trek þáttunum og segið það nokkuð um framúrstefnulegt form hans,
Womb Chair 1946   •   Eero Saarinen (1910-1961)
Womb Chair er örugglega einn af þægilegustu stólum sögunnar, enda hannaður samkvæmt kenningu Saarinen um að manninn  skorti það öryggi sem hann naut í móðurkviði, stóllinn eigi að gefa notandanum þetta öryggi með því að "halda utan um" hann. Sumir segja að aldrei hafi þörfin fyrir slíkri umhyggju verið jafn mikil og einmitt núna.
Framleiðandinn: Knoll      •      Hönnuðurinn: Eero Saarinen


Charles Eames (1907-1978) & Eero Saarinen (1910-1961)
 Organic Chair 1940   •   Charles Eames (1907-1978) & Eero Saarinen (1910-1961)
Charles Eames og Eero Saarinen voru kunningjar, saman tóku þeir þátt í samkeppni MOMA safnsins    "Organic Design in Home Furnishings" 1940. Formgjöf þeirra félaga var oft á undan sinni samtíð hvað framleiðslu varðaði og svo reyndist einnig með þennan stól. Skelin var formuð úr krossviði og ekki fanst ásættanleg aðferð til fjöldaframleiðslu fyrr en 10 árum síðar.
Framleiðandinn: Vitra


Eileen Gray (1878-1976)
Bibendum Chair 1929   •   Eileen Gray (1878-1976)
Eileen Gray (1878-1976) var falið að innrétta íbúð  fyrir konu sem rak virta hattasölu í París.  Eileen hannaði alla innanstokksmuni, teppi, lampa, húsgögn og stólinn Bibendum. Verkið tók fjögur ár. Stólinn nefndi hún Bibendum eftir fígúrunni sem einkenndi auglýsingar Michelin hjólbarða - það er auðvelt að skilja samlíkinguna. Stóllinn vakti mikla athygli, formið var í anda modernismans og efnisnotkun var nýstárleg t.d. krómuð rörin. Eileen var frábær arkitekt en hlaut ekki þá viðurkenningu sem hún átti skilið fyrr en á síðari hluta ævi sinnar, hún varð 98 ára gömul.
Framleiðandinn: Aram      •      Hönnuðurinn: Eileen Gray

Michelinmaðurinn Bibendum
Kveikja að mótun stóls

No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.