Friday, February 25, 2011

Sindrastóllinn

Sindrastóllinn frá 1957 - Trapisulaga bakið og armarnir eru sterk einkenni.

Sindri (Sindrastál) var stofnað árið 1949 af Einari Ásmundssyni. Fyrirtækið flutti inn stál, byggingavörur og verkfæri og var eitt öflugasta fyrirtæki landsins á sínu sviði. Fyrirtækið starfrækti einnig stálsmiðju og um 1957 var hafin undirbúningur að smíði stálhúsgagna. Húsgögnin voru framleidd hjá Sindrasmiðjunni að Hverfisgötu 42. Smiðjan var í bakhúsinu (þar sem síðar var kaffistofa Samhjálpar) en árið 1959 var opnuð verslun  í framhúsinu, sem Sveinn Kjarval húsgagnaarkitekt hannaði. 
Sveinn Kjarval (1919-1981) lærði húsgagnasmíði og síðan húsgagnahönnun við Kunsthandværkerskolen í Kaupmannahöfn - þaðan útskrifaðist hann 1949. Sveinn var öflugur hönnuður sem setti mark sitt á umhverfi okkar sem gætir enn í dag. Því miður hafa mörg verk hans farið forgörðum t.d. flott kaffihús - kaffi Tröð - í Austurstræti þar sem nú er Eymundsson og fyrir nokkrum árum var Naustið við Vesturgötu eyðilagt. Hann teiknaði húsgögn og innréttingar í Samvinnuskólann að Bifröst sem ég held að séu enn í ágætu ástandi m.a. sandblásin viðarklæðning sem hann var upphafsmaður að hér á landi. Stólar úr matsalnum voru í notkun í kirkjunni að Hvammi (held ég fari rétt með nafnið) í Norðurárdal fyrir nokkrum árum. Það eru því fyrst og fremst húsgögn hans sem hafa varðveist.
Af húsgögnum Sindrasmiðjunnar eru tveir stólar best þekktir: stóllinn sem hét H-1; hannaður af Sveini Kjarval 1957 og stóllinn H-5 hannaður af Ásgeiri Einarssyni verk- og verslunarstjóra. 
H-1 stóll Sveins Kjarvals var framleiddur með eða án arma. Fæturnir voru úr 16mm rörum, efri hlutinn úr  11mm stálteinum og armar úr tekki. Neðst á fótunum flottur messing tappi. Seta og bak var bólstrað með gallondúk eða áklæði. Armarnir eru sterkasta einkenni stólsins og jafnframt vandasamasti hluti smíðinnar; með fjórum beygjum og þremur suðum á hvorum armi. Stóllinn var smíðaður til ársins 1970. Mér skilst að síðari árin hafi verið notaðir plast tappar undir hann - eigendur Sinrdastóla geta þannig gert sér einhverja grein fyrir hvenær á tímabilinu stólarnir þeirra voru smíðaðir.
Þessi stóll sést á mörgum gömlum myndum t.d. í Ljósmyndasafni Reykjarvíkur;  hann var algengur í mötuneytum og fundarherbergjum jafnt sem á heimilum. Á sýningu í París og vakti hann mikla athygli enda er mjög þægilegt að sitja í honum.
Verðmæti svona gripa liggur m.a. í að þekkja sögu þeirra og tengingu hvers og eins við þá. Þeir eru frá uppgangstímabili Eames hjónanna, Arne Jacobsen o.fl. þekktra hönnuða svo tímabilið er merkilegt. Talið er að Jón Gunnar Árnason, höfundur verksins "Sólfar" við Sæbraut, hafi annast frumsmíði H-1 Sindrastólsinns. Fleira fróðlegt mætti vafalaust telja til en látum hér við sitja. 
Hérlendis er engin raunhæfur markaður með svona gripi en hann mun vonandi þróast,. Amælisútgáfa - 50 stólar - af stólnum "H-5" er nú seld á 160.000-kr hjá Sólóhúsgögn   (það sama og hann kostaði hér áður fyrr að viðbættum verðbótum!). H-1 stóllinn verður vonandi smíðaður aftur og þá myndast eitthvað verðmat á hann. En ef hann kom t.d. frá langömmu eigandans verður hann vart metinn til fjár!

Uppfærsla mars 2013.
G.Á. húsgögn hafa nú endurvakið framleiðslu Sindrastólsins  eftir Svein Kjarval. Endurkoma hans var kynnt á sýningu íslenskra húsgagnaframleiðenda í Hörpu á Hönnunarmars 2012.

Textinn er aðallega unnin úr heimildum af hinum frábæra vef: timarit.is
Einnig: Ljósmyndasafn Reykjavíkur
Og svo auðvitað „maður sem þekkir manna sem veit...“. Takk fyrir það!



No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.