Thursday, February 10, 2011

Splunkunýir "útjaskaðir" gítarar

Lúnir og snjáðir Fender gítarar - beint úr verksmiðjunni. Gallagher týpan er brúni Stratinn.


Ný-snjáður Tele
Áður fyrr voru rispaðir og slitnir gítarar seldir fyrir slikk. Vel bónaður gítar sem glampaði í sviðsljósinu var málið - eins og Rauður Hank Marvins í The Shadows.  Seinna fóru menn að stúdera aðra gítarleikara, Stevie Ray Vaughan og Rory Gallagher, sem var alveg sama um útlit gítarsins á meðan hann skilaði rétta sándinu. Aðdáendur The Shadows glöddust ef sjón þeirra var svo slæm að þeir þurftu gleraugu - eins og Hank - aðdáendur Steve og Rory glöddust í hvert skipti sem góð rispa bættist á gítarinn. Vel slitinn gítar ber þess merki að á hann hafi verið leikið, hann hafi þvælst um víðan völl og geymi mörg góð jigg. Ætla mætti að til þess að verðskulda þennan sess hefðu gítar og spilari stritað um víða völl en, eins og oft er, það er ekki víst að svo sé. Fender og Gibson hafa í nokkur ár framleitt gítara sem eru rispaðir, ryðgaðir, snjáðir og sprungnir, það er meira að segja hægt að fá nákvæma eftirlíkingu af gítar átrúnaðargoðsins. Módelin eru frá 50' , 60´s tímabilinu og fá fína dóma fyrir hljómgæði, sumir segja að "slitið" opni viðinn, aðrir fussa og sveia. Hvað sem því líður, nú geta allir eignast gítar sem lítur út eins og eigandinn hafi erft hann frá langafa Eric Clapton.
Splunkunýr útjaskaður háls með glæsilegu sliti, ryði og öðrum ósóma. 
Gítar Rory Gallagher er einn sá skrautlegasti. Eins og búast má við ganga sögur um það hvers vegna gítarinn er svona "illa" farinn. Rory átti mörg hljóðfæri en Stratinn var hans uppáhald, nemarnir voru vafðir nokkru sinnum og skipt var um háls því sá gamli var gegnsósa af svita. Einhversstaðar las ég þá tilgátu að Rory hefði verið í svo sérstökum blóðflokki að svitinn hefði hreinlega leyst upp lakkið! Kannske fylgir bytta af réttri tegund með Gallagher Strat.

No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.