Bústaður meistarans 4 x 4 metrar |
Það er merkilegt til þess að hugsa að eina byggingin sem Le Corbusier (1887-1965),afi modernismans, hannaði algjörlega fyrir sjálfan sig hafi verið 16 fermetra strandbústaðurinn Le Cabanon. Og það er ekki einu sinni alveg rétt því bústaðurinn var gjöf til konu hans. Corbusier teiknaði hann á 45 mínútum á nýársdag 1951, hann var svo byggður 1952. Þar dvaldi hann á sumrin í 10 ár og eyddi þar sinni síðustu nóttu 27. ágúst 1965, síðar þann dag drukknaði hann í sjónum nálægt bústaðum. Bústaðurinn er einstakt dæmi um mikro-arkitektúr sem er einfaldur og vandaður, þjónar fullkomlega hlutverki sínu og er laus við allan óþarfa. Sumir segja að efnisvalið gangi þvert á önnur verk meistarans, sem hreifst af sjónsteypu og talaði um hús sem "maskínur til að búa í". Bústaðurinn er úr timbri, klæddur krossviði að innan. Innanstokksmunir, sem þjóna flestir meira en einu hlutverki, eru úr furu og hreinlætistæki eru sömu gerðar og í járnbrautarvögnum. Á nokkrum stöðum eru málverk eftir Corb td. á á gluggahlerum og í forstofu.
Myndirnar eru af módeli í fullri stærð,sem var á sýningu Breska arkitektafélagsins 2009. Mér þótti þær snyrtilegri, sem er auðvitað bara pjatt. Góðar myndir af bústaðnum eru hér og hér má lesa ýmislegt um Corbusier.
Bústaður eins áhrifamesta arkitekts 20. aldarinnar, einfalt, einlægt og virkar. |
No comments:
Post a Comment
Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.