Sunday, July 3, 2011

Veggfóður - hreysi í dag höll á morgun


Veggfóður er frábært. endist í áratugi og er til öllum mögulegum gerðum. Það er hægt að láta drauma rætast með veggfóðri, blóðrautt sólarlag við rúmgaflinn og fuglar á grein í stofunni. Áður fyrr var veggfóður harðviðarklæðning fátæka mannsins.
Einu sinni bjó ég í veggfóðruðu húsi í suður London. Á veggjunum voru skógar með dádýrum og fuglum í fullri stærð, múrsteinar, loðin blóm, allskonar myndir og psychedelic mynstur. Þetta var eins og stöðug ofskynjun, íbúarnir urðu koxruglaðir af því að ganga um húsið. Fornleifafræðingar hafa lesið í heimssöguna með því að skafa mörg lög veggfóðurs af veggjum bygginga. 
Nú er veggfóður prentað í svo hárri upplausn að augað greinir vart muninn á mynd og raunveruleika. "Concrete Wall" veggfóður norska ljósmyndarans  Tom Haga  er gert eftir myndum af sjónsteypu með borðaförum, loftbólum, steypuskilum og öllu sem "prýðir" slíkan vegg. Hollenski hönnuðurinn Piet Hein Eek hefur hannað veggfóður í stíl við munina sem hann skapar úr allskonar aflóga efnum. Stíll hans er ekki ólíkur gítörunum sem hér var sagt frá. Hjá Studio Ditte eru álíka veggfóður og svo hið ítalska Wall & Deco með afar frumlegt veggfóður - heilan ævintýraheim. Annars er þessi pistill hér aðallega vegna myndana, sem eru flottar - það er ekki eins og heiminn skorti helst veggfóður - eða hvað?


Veggir í anda Piet Hein Eek

Hjá Studio Ditte eru margskonar fjalir og margir litir í boði
Wall & Deco - veggfóðraður ævintýraheimur 
Concrete Wall, sjónsteypa eins og hún gerist best - eða verst
.
.

No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.