Saturday, August 6, 2011

Berg - Menningarhús í Dalvík

Menningarhúsið Berg í Dalvík
Fögur fjallasýn - efnisval og form mynda fína samsvörun við umhverfið
Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli er haldinn hátíðleg í Dalvíkurbyggð í dag, fyrsta laugardag eftir Verslunarmannahelgi.  Búist er við meira en 30.000 gestum á hátíðina í ár. Þar verða því margir á ferð enda margt að skoða.
Um helgina eru líka tvö ár frá því að Sparisjóður Svarfdælinga afhenti bæjarbúum menningarhúsið "Berg" til afnota, þann 5. ágúst 2009. Í húsinu er aðstaða fyrir menningarstarfsemi af öllu tagi , Bókasafn Dalvíkur, upplýsingamiðstöð, 180 manna fjölnota salur sérhannaður fyrir tónlistarflutning, kaffistofa og aðstaða fyrir sýningar. 
Þetta er flott hús, efnisval og formgjöf frumleg og í góðu samræmi við staðsetninguna. Úr kaffistofunni má njóta útsýnis yfir Eyjafjörð og af pallinum, sunnanvert við húsið, sést til fjalla - þar er líka áhorfendabrekka ef einhver vill performera á pallinum. Flæðandi formið sem myndar kaffistofu og forrými að sal og bókasafni mun vera byggt á smáranum, merki sparisjóðanna. Þeir sem eiga leið um Dalvík ættu að líta við í Bergi, þar líður manni vel.
Fanney Hauksdóttir arkitekt hjá AVH á Akureyri hannaði húsið og á heiður skilinn fyrir. Þeir sem vilja leita húsa hennar á Akureyri og víðar ættu að líta eftir húsum með turni, þeir eru í miklu uppáhaldi hjá Fanneyju. Skemmtilegt.

Flæðandi formið er byggt á smáranum, merki sparisjóðanna
Salur og kaffistofa - skemmtilegar andstæður
Á kaffistofunni - Eyjafjörður og  stóllinn "Skata" eftir Halldór Hjálmarsson


No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.