|
Stóllinn SKATA séð frá öllum hliðum - greinilegur skyldleiki við nöfnu henna hér að neðan |
Halldór Hjálmarsson húsgagnaarkitekt hannaði stóllinn SKATA árið 1959. Stóllinn átti því 50 ára afmæli árið 2009. Tilvísun formsins í fiskitegundina Skötu er augljós og þjóðleg en fleira kemur til. Enskt heiti skötu er "Ray" en það voru einmitt hjónin Charles og Ray Eames sem voru frumkvöðlar formbeygðra stóla. Hér er því einnig tilvísun í nafnið Ray.
|
Fyrirmyndin |
Formbeygðir stólar virðast einfaldir, ein skel, einhverskonar fætur og úr verður stóll. Auðvitað er þessu ekki svo farið. Það tók hönnuði og verkfræðinga áratugi að finna ásættanlega aðferð til að gera formbeygðan stól. Mótið sem stóllinn er beygður í er flókin og nákvæm smíði. Því er aðdáunarvert að Halldór skyldi leggja í að smíða slíkt mót, það hlýtur að hafa tekið á og kostað miklar vangaveltur. Hugvitsamlega hönnuð festing fóta undir skelina á sér sennilega ekki hliðstæðu - engin skrúfa eða hlíf til að hylja festingar - einungis ein falleg festing úr mjúku gúmmíi. Allir hlutar stólsins, formbeygð skelin, fætur og gúmmífestngar voru smíðaðir hér heima. Stóllinn SKATA var framleiddur frá 1959 til 1973. Þá lagðist framleiðslan af og því miður mun mótið hafa glatast. Það hefði verið mikil fengur fyrir Hönnunarsafnið að eignast það.
SKATA gekk í endurnýjun lífdaga þegar Sólóhúsgögn hófu smíði hennar á ný árið 2007. Þar er hún framleidd í nokkrum viðartegundum og litum. Í tilefni afmælisins voru smíðuð 50 tölusett eintök sem seld eru hjá Hönnunarsafni Íslands.
|
Svört, tekk, hnota eða beyki - SKATA sómir sér vel hverju sem hún klæðist |
Halldór Hjálmarsson (1927-2010) lærði húsgagnasmíði á smíðastofu föður síns í Reykjavík. Hann nam húsgagnahönnun við listiðnaðarskólann í Kaupmannahöfn 1953-1956 og voru lærifeður hans Poul Kjærholm, Hans J. Wegner og Axel Bender Madsen. Að loknu námi stofnaði hann sitt eigið húsgagafyrirtæki en vann auk þess hjá Húsameistara Reykjavíkur. Húsgögn Halldórs voru afar fínleg eins og sjá má hér. Meðal verka hans eru innréttingarnar á kaffihúsinu Mokka við Skólavörðustíg.
|
Þrjár Skötur - sú fremsta er upprunaleg, 38-52 ára gömul, og ber sig bara vel miðað við aldur |
|
Flottar mjúkar festingar vernda stólana þegar þeim er staflað |
No comments:
Post a Comment
Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.