Þrír góðir: Rothko - T.4.1. - Light Light |
Þessir stólar hafa hver fyrir sig sérstöðu - einn ef gerður úr efni sem áður var hent, annar úr efni sem sjaldnast er kennt við húsgögn og sá þriðji úr efni sem allir þekkja. Eitt eiga þeir þó sameiginlegt: Ekki er allt sem sýnist - að baki þeirra liggur mikið hugvit og hönnun því þetta tvennt þarf að fara saman til að gera góðan hlut.
Rothko
"Rothko" stóll Alberto Liévore, var hannaður árið 1994 fyrir samnefnt veitingahús í Barcelona. Formið er innblásið af algengum stólum þar um slóðir en framleiðsluaðferðin er nýstárleg því hann er steyptur úr möndluskurn.
Svona stólar eru gjarnan smíðaðir úr fjórum krossviðar einingum en með nýju aðferðinni verða þær tvær og til verður stóll sem er einstakur á allan hátt. Skurnin er möluð og blönduð bindiefnum svo úr verður fljótandi massi sem helt er í steypumót sem móta setu og bak. Efnið er vatns- og hitaþolið, auðvelt í vinnslu og hefur fallegan lit og áferð
Á Spáni fellur til mikið af möndluskurn sem fram til þessa hefur verið hent, Rothko er því umhverfisvænn stóll og formið nýtur góðs af eiginleikum efnisins - krossviðar stóll væri ekki svipur hjá sjón við hliðina á Rothko.
Rothko einstakur stóll úr möndluskurn |
Innblásin af stólnum til vinstri - stól sem flestir þekkja |
Light light
"Light Light" er hannaður 1987. Hönnuðurinn Alberto Meda, er verkfræðingur og það er auðvelt að skynja það þegar stóllinn er skoðaður.
Stóllinn er gerður úr efninu Nomex - kjarna úr pappír með epoxy og koltrefjum beggja vegna. Þetta efni er best þekkt úr hátækniiðnaði t.d. flugvélaframleiðslu.
Það sýnir framsýni Alberto Meda að árið 1987 var efnið tiltölulega nýtt og mörg ár liðu þar til notkun þess varð almenn. Honum tókst að smíða mót til að forma efnið og klæða með koltrefjum. Þetta var svolítið brask, hann notaði m.a. háþrýst sótthreinsitæki (autoclave) til að skapa þrýsting og hita í mótið. En smíðin tókst og skapaður var stóll sem stendur fyllilega undir nafnininu "Light Light" því hann vegur aðeins 1. kg, er örþunnur en álíka sterkur og flugvélavængur.
Reynt var að fjöldaframleiða Light Light en það reyndist of flókið, auk þess þótti stóllinn of "high tech", sem hann var vissulega.
Light Light vegur 1.kg en er jafn sterkur eins og flugvélavængur |
Vangaveltur Albertos Meda um stærð og burðarþol |
T.4.1. (Tea for One)
"T.4.1." (Tea for One) stólinn hannaði Oliver Leblois árið 1995. Hann samanstendur af tveimur einingum úr tveggja laga bylgjupappa - undirstöðu og sæti - sem mynda stól sem þolir 200 kg þyngd en vegur aðeins 2.5 kg. Pappinn er unnin á umhverfisvænan hátt úr endurnýttum trefjum.
Það er ágætt að sitja í stólnum, halli setu og baks hentar flestum og pappinn er mjúkur viðkomu. Þennan stól er hægt að persónugera á hvern þann hátt sem eigandanum þóknast, teikna, prenta, mála klæða eða hvernig sem er. Auðvelt er að pakka honum aftur saman til geymslu eða flutnings og hann staflast ágætlega.
Þrátt fyrir marga kosti hefur komið í ljós að T.4.1. - og flest pappahúsgögn - er oftast notaður í stuttan tíma sem skyndistóll og síðan hent. Það má því spyrja hvort stóll sem hent er eftir hverja notkun sé í raun umhverfisvænn - endurvinnsla er ekki ókeypis. Framleiðandi: Quart De Poil'
Tea for One hefur yfir 200 kg burðarþol og eigandinn getur skreytt hann að vild |
Efnið: Tvær arkir af tvöföldum bylgjupappa |
No comments:
Post a Comment
Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.