Stundum er eins og öllum heimsins hönnuðum og framleiðendum hafi dottið það sama í hug - á sama tíma. Hugmyndin ferðast svo víða að það er engin leið að rekja hana til einhvers tiltekins hönnuðar, hún er einfaldlega allsstaðar - í öllum heimshornum. Borðin hér að neðan eru einmitt þannig. Borð af þessu tagi eru oftast talin eiga upphaf sitt að rekja til Bauhaus skólans í Þýskalandi. Um það má svo deila.
Íslenskt og traustbyggt - 1950-1962.
|
Þessi borð standa í Iðnaðarsafninu á Akureyri. Þau voru smíðuð hjá Málmhúðun KEA, sem framleiddi stálhúsgögn af ýmsu tagi, einhvern tíman á milli 1950-1962. Þetta er minnsta borðið af þeim sem sýnd eru hér en jafnframt það efnismesta, borðplata og skúffuskápur eru a.m.k. 3 sm að þykkt og rörin eru sver. Íslendingar vilja hafa hlutina trausta. Hönnuður er ekki tilgreindur. Minna borðið líkist húsgagni sem Marcel Breuer hannaði 1927, það átti að þjóna sem kollur eða borð, eftir aðstæðum að hverju sinni.
Tékkneskt - gráft, ryðgað og málað.
|
Hér er borð sem er lengra að komið. Það er smíðað í Tékkóslóvakíu um 1930 og virðist frekar óvandað t.d. sjást samskeyti röranna vel undir skúffunum. Einhver hefur hresst upp á það með málningu í ferskum lit og e.t.v. sett nýjar, svolítið eldhúslegar, höldur á skúffurnar.
Myndir: zeitlos-berlin.de
|
Og annað frá Tékkóslóvakíu dagssett 1935. Á efra borðinu er platan á milli röranna en hér er hún ofan á þeim, annars eru hlutföllin lík. Framleiðandinn var Kovona sem ennþá í fullu fjöri og framleiðir stálhúsgögn fyrir Ikea.
Myndir: zeitlos-berlin.de
|
Frá Þýskalandi kemur þetta vandaða afbrygði árið 1930, reyndar er búið að gera þetta eintak upp. Tappar undir rörinu til að lyfta því af gólfinu, hvergi samsetningu að sjá, harðviður í skúfunum og borðplatan er úr gleri. Þjóðverjinn klikkar ekki á gæðunum.
S 285 hannað af Marcel Breuer - Myndir: thonet.de |
S 285 boðið er hannað af Marcel Breuer 1935 og er í dag framleitt í nokkrum gerðum hjá Thonet, einum vandaðasta húsgagnafraleiðanda heims. Rörið er grennra, engin samskeyti sýnileg, viðurinn er hvítur eða svartur, krómið er silkistétt og rörin umlykja borðplötuna á alla kanta.
S 285 minimalismi. |
S 285 boðið er einnig til í þessari útgáfu sem hlýtur að flokkast til minimalisma. Með hæfilegu ímyndunarafli má sjá ýmislegt annað en borð úr þessu - gamlan jeppa, nuddbekk, þurkkgrind.
Og að lokum splunkunýtt borð og stóll frá Muji sem gefur helst ekki upp hönnuð og framleiðanda þess varnings sem fyrirtækið selur. En með aðstoð Google og hæfilegri forvitni kemur í ljós að hönnuðurinn er Konstantin Grcic og framleiðandinn er Thonet sem svo rækilega var hælt hér að ofan. Hönnuðurinn Grcic gengst fúslega við að uppruni hönnunarinnar sé frá Bauhaus.
No comments:
Post a Comment
Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.