Tuesday, November 27, 2012

Öðruvísi hljóðfæri - PH flygillinn

Poul Henningsen er best þekktur sem lampahönnuður og fyrir ákveðnar skoðanir á ljósgæðum. En hann fékkst við fleira, skrifaði gagnrýni og bækur og hannaði húsgögn - og lék á píanó. 
Árið 1931, fimm árum eftir að fyrsti PH lampinn kom á markað, hannaði Henningsen flygil sem á sér fáa líka. Stærð hljóðfærisins var miðuð við að það kæmist fyrir í meðalstórri stofu, 180 x 160 sm. Henningsen lagði alltaf ríka áherslu á að góð hönnun ætti að vera öllum aðgengileg og átti flygillinn að undirstrika það. Hönnunin er mjög frábrugðin því hefðbundna formi sem þetta hljóðfæri hefur oftast, enda var það ásetningur Henningsen að breyta ímynd hljóðfærisins og færa það í nútímalegan búning. Fæturnir eru frjálslega formaðir úr póleruðu áli - líkt og í dansi, hliðar úr rauðu leðri, listar úr ryðfríu stáli, lokið úr málmgrind með gegnsærri plötu til að píanóleikarinn geti séð til meðspilarana og harpan er lökkuð með silfurlitu lakki. Sumir flyglarnir voru með sjálfspilandi gangverki.
Að sögn Henningsens átti hljóðfærið ekki að vera húsgagn  heldur áhald í líkingu við síma eða útvarp - áhald til að skapa tónlist frekar en mubla til að prýða stássstofur. Móttökur voru blendnar og sitt sýndist hverjum bæði um hugmyndir Henningsens og um hljóðfærið sjálft. Einhverjir sögðu að Henningsen hefði lagt meira í ytra útlit en hljógæði, sem skipta auðvitað
öllu máli þegar hljóðfæri á í hlut.
Á 30 árum voru smíðaðir um 70 flyglar og víst er að markmið Henningsens um að gera þá að almenningseign mistókst. Í dag eru þeir seldir dýru verði hjá uppboðshúsum, til dæmis seldi Lauritz.com einn fyrir 270 þúsund danskar krónur nýlega. Þetta eru reyndar talin góð kaup því verðmatið var 450 þúsund danskar krónur. Og nú er einnig hægt að kaupa sér splunkunýjan PH flygil eða pianettu hjá Bluthner Í Leipzig. Þar á bæ hefur harpa hljóðfærisins verið endurhönnuð og nú hljómar hún eins og fínustu flyglar fyrirtækisins. Útlitið, segja þeir hjá Bluthner,  er ennþá jafn mikil framtíðarmúsík og það var 1931.

PH flygill - ál, stál, leður, ryðfrítt stál og glært lok
Harpan í nýrri gerðum af PH flyglum er gyllt en annað er að mestu leyti eins og upprunalega hönnunin.


Myndirnar:  Lauritz.com og tuvie.com.



No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.