Monday, November 26, 2012

Húsgögn og fuglar


Eitthvað verða húsgögn að heita og skemmtilegt er að sjá samræmi í formi eða sögu og heiti. Þekktasti stóll Börge Mogensens er t.d. framleiddur undir heitinu J-39 en í heimalandinu er hann þekktur sem "Folkestolen" vegna sögu hans og uppruna. Á sama hátt hafa mörg þekkt húsgögn öðlast nafn sem ekki er endilega það sama og það sem stendur í vörulistanum.
Áhugavert er að velta fyrir sér á hvaða stigi hönnunarinnar hluturinn fékk nafn. Til dæmis: Ákvað Arne Jacobsen að hanna stól sem líktist svani eða sá hann skyldleikann af tilviljun einhversstaðar í hönnunarferlinu? Hvaða form skyldu menn sjá í stólnum ef hann héti t.d. B26? Það er hægt að sjá mörg form í þessum stól - seglbát, smáfugl með sperrt stél, flugvél (stóllinn var hannaður fyrir SAS hótelið) og margt fleira.
Stólarnir á myndunum eiga það sameiginlegt að vera á einhvern hátt kenndir við fugla. Það er fróðlegt að velta fyrir sér skyldleika forms og nafns og hvort kom á undan - form eða nafn.


Tveir stólar Arne Jacobsen, Svanurinn og Eggið, hannaðir fyrir Konunglega Hótelið (SAS) í Kaupmannahöfn árið 1958. Hvort kom fyrst: Eggið eða svanurinn?


"Pelikan" (1939), stundum uppnefndur "Þreyttur Rostungur"- Finn Juhl (1912-1989). Meira hér.
Eins og flestir stólar Harry Bertolia er "Fugl (1950)" smíðaður úr teinum og vírum sem gera hann afar léttan. Að sögn Bertolia er eins og hann svífi í loftinu. Meira um Bertolia hér.
"Mávur" eftir Gosta Berg og Berg Eriksson.
Hans J. Wegner hannaði stólinn CH 445 árið 1960. Í dag heitir hann "Vængurinn". Meira um hann hér.

Það er ekki gefið að maður tengi fugl við "Flamingo" (1957) eftir Ernest Race. Þessi stóll fæst einnig sem tvíbreiður sófi.
Þessi rauði stóll fékk að fljóta hér með þó hann beri ekki fuglsnafn. Hann heitir "Engispretta" (1946) og er eftir Eero Saarinen.
"Páfugl" (1947) eftir Hans J. Wegner. Sagt er að þegar finn Finn Juhl sá þennan stól kollega síns hafi hann þegar í stað gefið honum nafnið Páfugl . Í vörulista framleiðandans hét hann hinsvegar PP50.
"Skarfur" (1960+) annar stóll með fuglsnafni, hannaður af Ernest Race.

"Fálki" (1970+) eftir Sigurd Resell er til í ýmsum útgáfum, úr málmi eða tré og með háu eða lágu baki.
Stóll Arne Jacobsen  Series 8: Model 3208 (1970) var framleiddur í takmörkuðu upplagi . Þegar framleiðsla var hafin á ný 2007 fékk hann nafnið "Lilja". Í millitíðinni hafði almenningur gefið honum nafnið "Mávur".  Stóllinn er framleiddur hjá Fritz Hansen sem einnig framleiðir Mávin frá 1968 eftir Gosta Berg og Berg Eriksson og þar er væntanlega komin skýring á því hvers vegna Liljan fékk annað nafn - það var þegar kominn mávur á vörulistann.
Síðast, en ekki síst, eru nokkrir stólar eftir Þórdísi Zoega en hún hefur gefið nokkrum stóla sinna fuglsnafn. 
Frá vinstri: Rjúpa, Spói og Tjaldur. Þá er ótalinn stóllinn Stelkur en af honum fann ég ekki ekki nógu góða mynd. Bæti úr því seinna.

Hér hefur áður verið fjallað um stólinn "Mörgæs" eftir hollenska hönnuðinn Theo Ruth. Einnig um stól sem hefur tvö nöfn eitt í Evrópu og annað vestan hafs.

Myndir: 
Efst: Kría a Seltjarnarnesi 2012 
aðrar myndir koma frá framleiðendum og víðar með hjálp Google.


No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.