Thursday, June 20, 2013

Tætingslegt bárujárnshús í Ástralíu.
















Undanfarið hefur mikið borið á húsgögnum og innréttingum úr endurnýttu timbri, helst illa förnu og hrörlegu (sjá dæmi). Þessi tíska er svo vinsæl að nú er farið að framleiða "gamalt timbur" til þessa brúks - svona rétt eins og splunkunýjar gauðrifnar gallabuxur. Það var því bara tímaspursmál hvenær þessi stíll færði sig út fyrir húsvegginn og settist að utan á húsunum.
Þetta hús í Ástralíu er gert úr gömlu skúrhræi sem var rifið og endurbyggt en
klætt götumegin með sama ryðgaða og tætingslega bárujárninu. Að öðru leyti er allt burðarvirkið nýtt, gluggar úr Corten stáli og bakhlið úr hvítum plötum, og ekki bera innviðir hússins keim af tætingslegri ytri ásýnd þess. Hönnuður hússins er Raffaello Rosselli og myndirnar eru frá designboom.
Óhjákvæmilega veltir maður fyrir sér hvernig svona byggingu yrði tekið á Íslandi þar sem bárujárnshús eru þjóðleg byggingarhefð og mikið lagt í að gera þau snyrtileg. Fátt yljar manni eins um hjartarætur og fallega uppgert bárujárnshús. 
En svo er fegurðarskyn fólks auðvitað misjafnt - mér þykir til dæmis hugmyndin um  ryðgað Corten stál á væntanlegu fangelsi á Hólmsheiði hvorki falleg né mannvæn en arkitektarnir eru á annarri skoðun.
Bakhliðin er úr hvítmáluðum sementsplötum.
Gluggar úr Corten stáli - annað er bárujárn.
Skúrinn fyrir og eftir endurbyggingu.

Blikklædd útihurð en að innan er húsið ósköp venjulegt - hvítmálaðir veggir og krossviður.
Væntanlegt ryðgað fangelsi á Hólmsheiði.  Fallegt og mannvænt?
(Mynd úr umsögn dómnefndar)



No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.