Tuesday, August 27, 2013

FP 140 "Polyprop" mest seldi stóll í heimi og bræður hans

Frímerki til heiðurs Robin Day

Árið 1963 bað breski húsgagnaframleiðandinn Hille hönnuðinn Robin Day (1915-2010) að hanna fyrir sig stól. Hille lagði svo fyrir að stóllinn skyldi vera staflanlegur og sterkur, uppfylla margvíslegustu kröfur um notagildi og þægindi, vera augnayndi og svo ódýr að hver sem væri hefði efni á að kaupa hann. 
Robin Day
Eftir þriggja ára hönnunar- og þróunarvinnu leit stóllinn dagsins ljós. Hann var steyptur í heilu lagi úr Polypropylene plasti, efni sem var svo nýtt að tæki til framleiðslunnar varð að hanna frá grunni. Ekki aðeins var hönnun stólsins einstök heldur var framleiðslutæknin og tækjasmíðin verkfræðilegt afrek á heimsvísu sem ruddi veg fyrir allskonar framleiðslu úr plasti. 
Stólnum var gefið nafnið FP 140 en fékk fljótlega viðurnefnið "Polyprop". Hann uppfyllti allar óskir Hille og kostaði aðeins um þrjú sterlingspund. Móttökurnar voru slíkar að á örskömmum tíma varð hann einskonar þjóðarstóll Englendinga - allstaðar mátti sjá stafla af gráum og dökkrauðum Polyprop. Seinna bættust svo við fleiri litir og stærðir svo það fékkst Polyprop til allra nota. 
FP 140 stóllinn er tvímælalaust ein mikilvægasta stóla- og vöruhönnun síðari hluta tuttugustu aldarinnar. Talið er að þessi fimmtugi stóll hafi verið framleiddur í 40 miljón eintökum í 40 löndum, þar af 14 miljón hjá Hille sem þróaði aðferðina, sem nú er notuð um víða veröld til að framleiða allskonar stóla - og eftirlíkingar - en Robin sagði að eftirlíkingar væru besta viðurkenning þess að vel hefði tekist til með frumhönnunina.

FP 140 "Polyprop" stólar í upprunalegum litum 


Armstóllinn (The Armachair)

Í framhaldi af velgengni FP 140 var eðlilegt að halda áfram - framleiðsluaðferðin hafði þróast og Robin lært hvernig mátti nýta hana til fullnustu. Armstólinn (The Armchair) kom á markað árið 1967 og var vel tekið, þetta er tímalaus stóll sem sómir sér ennþá vel hvar sem er, sérstaklega eftir að hann kom í nýjum ferskum litum.
Armstóll Robins Day frá 1967 í ferskum litum


Það er gaman að bera saman Armstól Robins og DAX stól Eames með það í huga að hönnuðirnir voru samtímamenn og vinir. Stólarnir eiga ýmislegt sameiginlegt hvað formið varðar og það má velta fyrir sér hvort máttur auglýsingarinnar ráði að einhverju leyti því að DAX stóllinn skyggir á Armstól Robins eða það að hönnun hans er eldri en armstólsins - og svo er þetta auðvitað spurning um hvað fólki þykir fallegt .


Gulur DAX stóll Eames frá 1948 og fagurgrænn Armstóll Robins frá 1967

Polo stóllinn

Robin hannaði enn einn plast stól árið 1972. Þetta var Polo stóllinn - í nýjum ferskum litum og tæknilega fullkomnari en FP 140. Polo stóllinn prýðir marga af stærstu útileikvöngum heims, það er ekki amalegt að selja 90.000 stóla í einum pakka eins og á Wembley í London!
Polo stóllinn var strax framleiddur í hressilegum litum


12 Polo stólar í stafla en þá má líka setja á sérstakan vagn
Hjónin Lucienne og Robin Day voru meðal áhrifamestu hönnuða síðari hluta 20. aldarinnar. Lucienne var best þekkt fyrir textílhönnun en Robin fyrir húsgagnahönnun. Meira um þau hér á síðunni innan tíðar en hér er annar stóll Robins.




No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.