Wednesday, October 17, 2012

Morgunferð í Leifsstöð

Regnboginn eftir Rúrí 



Aksturinn í Lefsstöð er orðinn flestum svo tamur að leiðina má næstum aka með lokuð augu. Oft er fólk snemma á ferð - var að pakka í ferðatöskur langt fram eftir nóttu -svo það er um annað að hugsa en umhverfið og á stundum nóg með að halda sér vakandi. 
En ef vel er að gáð er margt áhugavert að sjá á þessari leið. Sé maður að aka einhverjum í Leifsstöð, er því upplagt að gefa sér tíma til að skoða umhverfið og fara e.t.v. Vatnsleysuströnd til baka.
Hér eru nokkur mannvirki sem á vegi manns verða en auðvitað er það landið sjálft sem mest heillar.








Regnboginn eftir Rúrí er afar fallegur og margbreytilegur þar sem hann rís úr jörðu og skiptir stöðugt um liti og ásýnd eftir veðri og dagtíma


Við Leifsstöð - ekki eru allir á eitt sáttir um ágæti rauða hússins
Það er snyrtilegt við Leifsstöð. Húsið sjálft stendur vel og þjónustubyggingar eru lágreistar - nema rauða byggingin sem er eitt af fyrstu kynnum útlendinga af íslenskum arkitektúr og sitt sýnist hverjum um þá kynningu.


Litríkit hutaveitutankar og dælustöð

Ormar Guðmundsson arkitekt hannaði vatnstankana sem eitt sinn voru umdeildir vegna litadýrðar. Í dag sóma þeir sér vel með öðrum byggingum á svæðinu og allir eru sáttir við þá. Ormar hannaði einnig orkuverið í Svartsengi sem sést til á leiðinni

Mannvirki innan girðingar









Inni á flugvallarsvæðinu eru ýmis mannvirki sem maður veitir sjaldan eftirtekt. Þessi tvö eru t.d. athyglisverð, jafnvel þó ekki væri nema vegna þess hvernig birtan leikur um þau.

Þotuhreiður
Þotuhreiður Magnúsar Tómassonar í allri sinni stærð er ótrúlega fínlegt og konseptið skemmtilegt. Skugginn færist til eftir gangi sólar eins og á plánetu.

Bjart glerhús við brottfararstigan
Upphaflega var Leifsstöð afar drungaleg að innan en síðari tíma viðbætur hafa bætt úr því. Glervirkið við brottfararstigan gerir mikið fyrir húsið og þaðan sést í Þotuhreiðrið í návígi og Regnbogann fjær. Grindin í glerhúsinu er líka fín.
Strætóskýli Reykjanesbæjar




Í Reykjanesbæ má sjá enn eina eftirhermu af  rauðu skýlunum í Reykjavík, sem Birna Björnsdóttir innanhússarkitekt og Gunnar Torfason verkfræðingur  hlutu verðlaun fyrir árið 1980. 
Fáir hlutir hafa þurft að þola jafn margar lélegar eftirlíkingar og þessi skýli, sem voru mjög fín og gætu verið Reykjavíkurborg til sóma ef upprunalegu hönnuninni hefði verið fylgt. Í stað þess hafa einhverjir gert ótrúlegar skrumskælingar af þeim um allt land, samanber skýlin í Reykjanesbæ.
Sannkölluð sumarhöll við Vatnsleysuströnd
V Vatnsleysuströnd stendur þetta sérstaka hús sem ég hef ekki meiri upplýsingar um í bili. Bæti úr því seinna.




Thursday, October 11, 2012

40 stólar 120 sentimetrar



40/4 - Það tók 10 ár að þróa hann og sannfæra einhvern um ágæti hans
David Rowland (1924-2012) var 16 ára gamall þegar hann hóf listnám við Institute of Design í Chicago, skóla sem upphaflega var nefndur The New Bauhaus. Þremur árum síðar kallaði herskyldan og hann þjónaði sem orustuflugmaður í Evrópu 1943-45. Þá snéri hann aftur heim lauk náminu og starfaði um tíma hjá Norman Bel Geddes, fyrsta iðnhönnuði Bandaríkjanna.
Fallegur stafli
40 stólar 120 sm á hæð
Rowland hafði sérstakan áhuga á stólum og notaði frístundir til að sinna þessu áhugamáli sínu. Hann hafði slæma reynslu af því að sitja í 12 klukkustundir samfellt í óþægilegu sæti orustuflugvélar og einsetti sér að hanna þægilegan stól. Hann smíðaði módel af stól sem hann sýndi Florence Knoll hjá húsgagnafraleiðandum Knoll en hún hafnaði stólnum kurteisislega. 
Ekki gafst hann upp heldur reyndi í nokkur ár að hanna stóla sem féllu að smekk Knoll en þeim var öllum hafnað. Þá kom honum til hugar að hanna stól sem hefði á einhverju sviði yfirburða tæknilega eiginleika sem heilla myndu Knoll, frekar en útlitið eitt. Niðurstaðan varð staflanlegur stóll með stelli úr grönnum teinum. Hér var kominn stóllinn 40/4 sem dregur nafn sitt af því að stafli 40 stóla er 4 fet á hæð. Þennan stól ákvað Knoll að taka til framleiðslu en hætti svo við, eina ferðina enn. 
Tíminn líður - á húsgagnasýningu hittir Rowland fyrrum sölustjóra Knoll sem sýnir stónum 40/4 mikinn áhuga. Úr verður að hann kynnir stólinn fyrir arkitektum nýrrar háskólabyggingar, sem heillast af honum og kaupa 17.000 stóla í háskólann. Þetta ferli hafði tekið átta ár en nú var sigurför 40/4 hafin og á ríflega 50 árum hefur hann selst í miljónum eintaka. Sjálfur sagðist Rowland hafa hætt að telja þegar hann fór yfir 5 milljón stykkja markið.
Í sal Mentaskólans við Hamrahlíð voru keyptir 40/4 stólar og eru þeir þar ennþá þótt sumir þarfnist smá viðhalds. Því miður voru ekki keyptir samskonar stólar þegar stólum í salnum var fjölgað. 
40/4 í öllum regnbogans litum
Grind 40/4 er gerð úr 11 mm stálteinum. Seta og bak var upphaflega úr stáli en er í dag gerð úr viði. Það er einstaklega þægilegt að sitja í stólnum, hann heldur vel við og hallar rétt. Á einfaldan hátt er hægt að festa stólana saman í röð, einnig fást á hann handhægar borðplötur - smellpassar fyrir spjaldtölvuna þrátt fyrir aldur stólsins - og grindur til að geyma ýmislegt í.


Framleiðandi: Hove




Saturday, October 6, 2012

Sturla Már Jónsson - húsgögn 1987-2014




________________________________________________________
Sturla Már Jónsson 
húsgagna- og innanhússarkitekt fhi


Vefsíða Sturlu með upplýsingum um húsgögn og hönnun hans 1987 til dagsins í dag.



________________________________________________________



Monday, October 1, 2012

Hönnunarsafnið í London

Gamla bananageymslan var heldur óáhrjáleg, en Bauhaus stíll þess kom í ljós þegar Terence Conran hafði farið um það höndum
Design Museum í London er fyrsta safnið sem helgað er hönnun 20 og 21 áratuganna. Það var stofnað árið 1989 og er staðsett í gamalli bananageymslu suðurbakka Thames, þar sem eitt sinn var blómlegt viðskipta- og hafnarstafssemi, sem var í mikilli niðurníðslu þegar safninu var ákveðin þar staður. Nú hefur þetta hverfi að mestu verið endurbyggt og aðkoma að húsinu, sem er í Bauhaus stíl, er góð. 
Það er skemmtilegt að gefa sér tíma til að  ganga sunnanmegin með ánni, t.d. frá Westminster brúnni, að safninu - jafnvel hægt að taka bát til baka eða ennþá lengra niður ánna. Þeir sem hafa góðan tíma geta komið við í Tate Modern sem er í gömlu orkuveri á leiðinni, þó ekki væri nema til að setjast aðeins niður í gamla vélarýminu. Annars er næsta lestarstöð Tower Hill og þaðan er gengið yfir Tower Bridge, sem er líka skemmtilegt. Austan við Tower Bridge leynist St.Katharine Docks, kyrrlát vin með fallegum snekkjum og ágætum veitingahúsum.
Ráðgert er að 2014 muni safnið flytja í sögufræga byggingu Samveldisstofnunarinnar (Commonwealth Insitute) í Kensington. Þar mun fara betur um starfsemi þess og mögulegt verður að hafa standandi sýningu á munum í eigu safnsins, en til þess er ekki rými í húsinu við Thames. Í Kensington er safnið nálægt Mekka margs hönnunarnemans: Royal College of Art.
Design Museum er sjálfseignarstofnun, rekið með styrkjum og ágóða af starfseminni. Þetta hefur ekki hindrað það í að setja saman viðamikið fræðsluefni fyrir almenning og námsfólk. Sérstaklega má þar nefna fræðsluefni fyrir grunnskóla, sem er einstakt og hefur tengt safnið almennri fræðslu. Það er því ekki síðra að koma í safnið á skólatíma og fylgast með unga námsfólkinu meðtaka umhverfið á þann hátt sem aðeins börnum er gefið. Sönn opinberun. 


Framtíðarsýn -Nýja safnið í Kensington í sögufrægri byggingu frá 1960 mun breyta miklu.
Á pallinum (til hægri) er nú ýmsu áhrifafólki boðið til kvöldverðar í fjáröflunarskyni, en hann er auðvitað ekki svona fínn í núverandi ástandi.