![]() |
Hekla - massíft skuggaspil í dagsljósi, logandi hnöttur á kvöldin |
Húsgagnaarkitektarnir Jón Ólafsson og Pétur B. Lúthersson hönnuðu lampann "Hekla" árið 1962, þá voru þeir við nám við listiðnaðarskólann í Kaupmannahöfn. Lampinn bar sigur úr býtum í samkeppni á vegum lampaverslunarinnar Fog og Mörup og var framleiddur í 15 ár. Lampinn er 50 sm í þvermál, smíðaður úr áli og tekur allt að 150 kerta peru. Hann lýsir mjög vel og eiginleiki hans til að skipta um form er einstakur - í dagsbirtu virkar hann eins og massíf hálfkúla með mikið skuggaspil en þegar kveikt er á honum virkar hann léttur og svífandi leikur með kúlu og pýramída.. Sjaldgæft að sjá Heklu lampa til sölu en það kemur þó fyrir, verð á síðum sem gefa það í dollurum er gjarnan 1.200 - 1.500 dollarar og þá á eftir að greiða flutning og virðisaukaskatt. Stundum kemur Hekla í dönsk uppboðshús og fer þá verðið eftir aðstæðum og ástandi lampans. Framleiðsla mun hafa hafist 1964 og framleiddir voru um 15.000 lampar. Hér til hliðar er merki Fog og Mörup, dæmigerð 50s hönnun, neðri myndin sýnir forsíðu vörulista Fog og Mörup ca.1963. |
![]() |
Takið eftir myndinni í miðjunni þar sem Hekla er notuð sem borðlampi - hún sómir sér líka vel þannig |
Ljósu myndirnar hér að ofan sá ég hjá City Furniture í Belgíu, sem hafði einn lampa til sölu, og bætti þeim við á síðuna í október 2012. Í miðjunni er mynd sem mér var send, hún sýnir óvanalega notkun Heklu sem borðlampa - hún er líka falleg þannig.
Hinn eina sanna Hekla - nafna lampans góða.
Auglýsing frá Fog & Mörup.
Ég datt óvænt inn á síðuna þína í dag, vissi ekki af henni. Verulega gaman að sjá. Hönnunarsafn Íslands mun á næstunni fá Heklu-ljósið að gjöf frá velunnurum safnsins og ljósið mun vonandi verða á meðal þeirra hluta úr safneign safnsins sem sýndir verða á næstu sýningu okkar. Hún verður opnuð nú í júní og mun standa vel fram á haust.
ReplyDeletemeð kveðju,
Harpa Þórsdóttir
forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands
Design and ThingsMay 24, 2011 at 7:12 AM
Takk fyrir innleggið Harpa það er hvetjandi að heyra frá lesendum, mikið vildi ég að fleiri leggðu orð í belg og svo hér myndaðist umræða um hönnun. Íslenska efnið er tímafrekara en það mun bætast við það smám saman. Hlakka til næstu sýningar í safninu.
ReplyDelete