Showing posts with label Grafik. Show all posts
Showing posts with label Grafik. Show all posts

Friday, January 11, 2013

Ókeypis dagatal 2013 með klassískri hönnun

Áður hefur verið sagt frá einstaklega fallegum dagatölum sem hægt er að nálgast á vefsíðu blue ant studio
Nú hefur hefur Joel Pirela, sem heldur síðunni úti, gefið út enn eitt dagatal og nú fyrir árið 2013.  Það einfaldara en hin fyrri en eigi að síður mjög fallegt með stílfærðum myndum af mörgum vel þekktum stólum. 
Hægt er að sækja dagatalið hér. Best er að velja "original" stærðina, hún prentast vel á A4 með  spássíu fyrir gorm efst á blaðinu. Myndirnar eru í hreinum litum og prentast fullkomlega úr laser- eða blek prentara.
Fyrri útgáfur má skoða hér: 2010,  2011, 2012, það er vel þess virði
Joel Pirela kemur víða við. Á pireladesign má sjá hnífa sem hann hannar, á blueartstudio eru til sölu fallegar veggmyndir af hönnun sem flestir þekkja (yfirlit hér) og svo skrifar hann um hönnun á blue ant studio og design-milk



Tuesday, June 26, 2012

Fjölhæfir blaðsneplar

Árið 1968 bjó apótekari nokkur til lím sem sem hægt var að nota aftur og aftur. Hann kynnti límið á ýmsan hátt, m.a. fyrir risa-fyrirtækinu 3M sem sýndi því lítinn áhuga. Starfsbróðir apótekarans, sem hafði sótt eina af kynningum hans, fékk þá hugmynd að setja límið á blaðsnepla sem hann notaði sem bókamerki í sálmabókina sína. Hann hafði síðar samband við 3M sem tók þátt í að þróa hugmyndina áfram. Upphafsmaður hugmyndarinnar fékk því aldrei neitt í sinn hlut fyrir hana. Ljótt er að heyra - og meira að segja sálmabók með í plottinu! - en svona gengur þetta stundum fyrir sig, jafnvel hjá fyrirtækjum sem þykjast vönd að virðingu sinni.  Post-it var markaðssett árið 1977 og sigurgangan var hafin. 


Post- it er notað til ótrúlegustu hluta



Wednesday, December 21, 2011

Nýtt ókeypis dagatal með klassískri hönnun

2012

Í fyrra sögðum við  frá einstaklega fallegu dagatali sem hægt er að nálgast á vefsíðu blue ant studio
Nú hefur Joel Pirela, sem heldur síðunni úti, gefið út nýtt dagatal fyrir árið 2012. Hægt er að sækja það hér. Best er að velja "original" stærðina, hún prentast vel á A4 spássíu fyrir gorm efst á blaðinu. Myndirnar eru í hreinum litum og prentast fullkomlega úr laser- eða blekprentara.

12 mánuðir - 12 myndir af fallegum hlutum sem flestir þekkja

Joel Pirela kemur víða við - á pireladesign má sjá hnífa sem hann hannar, á blueartstudio eru til sölu fallegar veggmyndir af hönnun sem flestir þekkja (yfirlit hér) og svo skrifar hann um hönnun á blue ant studio og design-milk.




Sunday, July 3, 2011

Veggfóður - hreysi í dag höll á morgun


Veggfóður er frábært. endist í áratugi og er til öllum mögulegum gerðum. Það er hægt að láta drauma rætast með veggfóðri, blóðrautt sólarlag við rúmgaflinn og fuglar á grein í stofunni. Áður fyrr var veggfóður harðviðarklæðning fátæka mannsins.
Einu sinni bjó ég í veggfóðruðu húsi í suður London. Á veggjunum voru skógar með dádýrum og fuglum í fullri stærð, múrsteinar, loðin blóm, allskonar myndir og psychedelic mynstur. Þetta var eins og stöðug ofskynjun, íbúarnir urðu koxruglaðir af því að ganga um húsið. Fornleifafræðingar hafa lesið í heimssöguna með því að skafa mörg lög veggfóðurs af veggjum bygginga. 
Nú er veggfóður prentað í svo hárri upplausn að augað greinir vart muninn á mynd og raunveruleika. "Concrete Wall" veggfóður norska ljósmyndarans  Tom Haga  er gert eftir myndum af sjónsteypu með borðaförum, loftbólum, steypuskilum og öllu sem "prýðir" slíkan vegg. Hollenski hönnuðurinn Piet Hein Eek hefur hannað veggfóður í stíl við munina sem hann skapar úr allskonar aflóga efnum. Stíll hans er ekki ólíkur gítörunum sem hér var sagt frá. Hjá Studio Ditte eru álíka veggfóður og svo hið ítalska Wall & Deco með afar frumlegt veggfóður - heilan ævintýraheim. Annars er þessi pistill hér aðallega vegna myndana, sem eru flottar - það er ekki eins og heiminn skorti helst veggfóður - eða hvað?


Veggir í anda Piet Hein Eek

Hjá Studio Ditte eru margskonar fjalir og margir litir í boði
Wall & Deco - veggfóðraður ævintýraheimur 
Concrete Wall, sjónsteypa eins og hún gerist best - eða verst
.
.

Thursday, June 2, 2011

Bo Bedre - 50 ára gamall Íslendingavinur

Bo Bedre hefur lengi verið uppáhald Íslendinga. Allt frá því að blaðið hóf göngu sína árið 1961 hefur það verið selt til Íslands. Bo Bedre var verðug viðbót við þá menningu Íslendinga sem nefndist "dönsku blöðin". Allir Íslendingar vissu að þegar þessi tvö orð voru sögð saman var átt við tímaritin Familie Journal, HjemmetFemina, og Alt for Damerne. Síðan slóst Bo Bedre í hópin og e.t.v. einhver fleiri .

"Dönsku blöðin" eru enn í fullu fjöri og nota meira að segja sömu lógó og í "den tidt".
Íslendingar féllu sem sagt fyrir Bo Bedre. Blaðið seldist alltaf upp og bókaverslanir voru farnar að taka blaðið frá fyrir fasta kúnna - einskonar áskrift. Jólablaðið var einkar vinsælt, það var geymt með jólaskrautinu og Bo Bedre kom með jólunum til að baka og gera jólaskraut eftir - helst nokkrir árgangar. Og Bo Bedre er ennþá vinsælt, enda mjög gott blað og laust við öfga.
Bo Bedre á afmæli í ár - það er hálfrar aldar gamalt. Hvað hefur breyst á þessum tíma, eru ekki gamlar forsíður óskaplega púkalegar og gamaldags? Til að kanna það eru hér 14 forsíður - fyrsta janúarblað og síðasta jólablað hvers áratugar frá 1961.  Margt má úr þessum myndum lesa en skoði nú hver fyrir sig, hvort sem áhugi er fyrir framsetningu og leturgerð, innanstokksmunum eða jafnvel stöðu kvenna. Eitt er þó hægt segja um Dani með vissu - þeir eru samir við sig hvort sem litið er til ársins 1961 eða 2011. Hvaða litur er t.d. á veggjunum þessi 50 ár sem myndirnar spanna? 


 Myndirnar eru af vefsíðu Bo Bedre. Hér er hægt að skoða allar forsíður blaðsins 1961-1999.
.
.

Monday, May 30, 2011

Hönnun & hlutir - Wallpaper forsíðan 2011


Þetta er nú eiginlega hálfgert svindl og auðvitað bara mont - en það skaðar engann að kitla hégómagirdina öðru hvoru og skemmta sér. Undanfarin ár hefur áskrifendum Wallpaper tímaritsins boðist að hanna sína eigin forsíðu í sérstöku forriti á vef Wallpaper. Áskrifendur fá svo júlí blaðið með sinni sérhönnuðu forsíðu. Í fyrra voru prentaðar rúmlega 21.000 sérhannaðar forsíður. Hönnun og hlutir fá auðvitað sína forsíðu og svona mun hún líta út þetta árið - "keep it simple" aðferðin. Auðvitað er forsíðan á vefnum hjá Wallpaper, hún er hér og þar má einnig skoða margar frumlegar forsíður m.a. hefur einn notað forsíðuna sína til að bera upp bónorð. 
Wallpaper er ágætt tímarit svo lang sem það nær. Þar á bæ hafa menn nefnilega ekki tekið eftir bönkunum sem hrynja umvörpum í kring um þá. Mikið er fjallað um dýra hluti og lífsstíl. Ég mundi t.d. ekki velja hótel að ráðum blaðsins - nema kannske síðustu nóttina mína hér á jörðu - og greiða þá eftir á.
En blaðið er fallegt og auglýsingarnar einnig og það er hægt að skapa sér gífurlegar vinsældir á heilsugæslustöðinni sem fær notuðu blöðin. 
Í áskrift kostar blaðið oftast um 1000 kr. ef setið er um áskriftartilboð á vefsíðunni.
.
.

Monday, May 16, 2011

Baðherbergi - Tölvugrafik úr mósaík flísum


Rýmið er ekki stórt.


Grunnflötur þessa bað- og búningsherbergis er ekki stór en arkitektarnir "dma" hafa farið um það skapandi höndum og gert úr því mjög áhugavert rými. Mosaik flísum er raðað eins og svart/hvítri tölvugrafík. Annað er gult, jafnvel salernispappírinn, og málverk hangir á vatnsbláum vegg í búningsherberginu.

.
.

Thursday, April 28, 2011

Veggmyndir og ókeypis dagatal með klassískri hönnun

Veggmyndir með stólum einstakra hönnuða
Á vefsíðu blueartstudio eru til sölu fallegar veggmyndir með frægri hönnun sem flestir þekkja. Myndirnar eru ca 42x27 (A3) að stærð  handprentaðar og undirritaðar á góðan pappír. Joel Pirela heldur síðunni úti og bloggar um allskonar hönnun, auk þess sem hann skrifar fyrir design-milk. Hann heldur einnig út síðunni pireladesign um hnífa sem hann hannar en þeir eru  sérstakt áhugamál hans. 
Í fyrra gaf hann út dagatal með myndum af frægri hönnun. Dagatalið gat hver sem er halað niður og prentað. Nú hefur hann gefið út nýtt dagatal fyrir 2011 með samskonar myndun. Það er í hárri upplausn og í því eru eingöngu hreinir litir svo það pentast fullkomlega úr laser- eða blekprentara. Hægt er að sækja það hér. Dagatalið fyrir 2010 var ekki síðra og það er hér.
Uppfært 2012: Joel hefur bætt við dagatali fyrir árið 2012Uppfært 2013: nýtt dagatal fyrir árið 2013.

Veggmyndir með klassískri hönnun
Dagatal 2011 er hægt að sækjá ókeypis hér.
.
.

Friday, April 8, 2011

Harpa tónlistarhús frá hafi

Vinstra megin er ljósmynd, hægra megin er tölvugerð mynd

Það styttist óðum í að tónlistarhúsið Harpa opni. "Húsið þitt" og "Ný framtíðarsýn" segir á vef Hörpu. Húsið hannaði teiknistofa Henning Larsens i samstarfi við Batteríið arkitekta. Ólafur Elíasson hannaði glerhjúpinn sem umlykur húsið í samvinnu við arkitekta teiknistofunnar. Eitt af megineinkennum hans er tilvísun í ýmis fyrirbæri úr náttúrunni og einstök birtuskilyrði landsins. Sagt er að hjúpurinn verði einstaklega áhrifamikill sjávarmegin við húsið. Tölvugerða myndin hér að ofan, gerð af arkitektunum, sýnir húsið frá þessu sjónarhorni. Það er alltaf spennandi að sjá hve rétta mynd af byggingum tölvumyndir gefa, alltaf er hætta á að eitthvað fari úrskeiðis og útkoman verði önnur en myndin sýnir. Ég tók því nokkrar myndir til að kanna hve raunhæf tölvumyndin er. Vinstra megin er ljósmynd tekin á rigningardegi, hægra megin er svo tölvugerða myndin og það verður að segjast að útkoman er ótrúlega nákvæm. Veðrið hefur reyndar verið skárra daginn sem tölvumyndin var gerð en þá ber líka að hafa í huga að ekki er búið að "kveikja" á húsinu þegar ljósmyndin var tekin, það mun væntanlega breytast mikið þegar ljósin inni verða tendruð. Að neðan er svo mynd af húsinu, höfninni og Reykjavík af hafi, það er hægt að skoða hana stærri hér. 

Reykjavík, Harpa og höfnin af hafi.
.
Hér er önnur samskonar pæling

.
.

Wednesday, December 22, 2010

Þrívíddar teikningar


• Ljósmynd eða teikning... ? 

Gríðarlegar framfarir eru í þrívíddar-teikningum. Það auðveldar alla vinnu við hönnun og ákvarðanir að geta skoðað byggingu, næstum því eins og að vera á staðnum, áður en hún er byggð. Hjá framleiðendum forrita ríkir mikil samkeppni, stöðugt bætast við ný forrit og uppfærslur með nýrri tækni. Framleiðendur leggja einnig mikla áherslu á að gera viðmótið sem einfaldast því oft eru þessi forrit mjög flókin. Það er þó listamaðurinn sjálfur sem mestu máli skiptir, forritið er aðeins áhald til að vinna verkið sem hann sér fyrir sér.

Til gamans eru hér tvær myndir af Box Office; önnur er ljósmynd en hin er teikning, þær eru mjög líkar. Læt ykkur eftir að segja til um hvor er hvað, skoðið fólk, himin og hvort eitthvað vantar í umhverfið.

Teikningarnar eru gerðar af  Tim Nelson og á vefsíðu hans má sjá fleiri teikningar.
.
.