Sunday, July 3, 2011

"New Designers" og "One Year On" sýningar í London

Business Design Centre er til húsa í verndaðri byggingu frá 1861
New Designers sýningin í London er spennandi vettvangur fyrir nýja hönnuði og fyrirtæki sem leita nýrra hugmynda og samstarfs.Þar koma saman ríflega 3500 nýútskifaðir hönnuðir frá 200 breskum menntastofnunum á öllum sviðum, með nýjar og ferskar hugmyndir, tilbúnir að takast á við ný verkefni. Þarna hafa margir þekktir hönnuðir stigið sín fyrstu spor til farsældar. Sýningin er líka einskonar námsstefna þar sem fjöldi fyrirlestra og námskeiða um hvaðeina sem viðkemur heimi hönnunar er í boði
Sýningin, sem nú er haldin í 36. skipti, fer fram í London Business Design Centre í Islington, einstakri byggingu frá 1861 sem smellpassar við allan sköpunarkraftinn. Hún er kostuð af framsýnum fyrirtækjum sem sjá þarna tækifæri til að koma á samstarfi milli hönnuða og framleiðenda. Ótrúlegur uppgangur hönnunar og gríðarlegt framboð hönnuða þýðir hinsvegar að hart er barist um verkefnin. 
Samhliða New Designers er One Year On sýningin. Þar sýna 50 hönnuðir sem stofnað hafa fyrirtæki á síðastliðnu ári. Þarna gefst frábært tækifæri til að koma afurðum fyrirtækisins á framfæri. Ekki komast allir að því sérstök dómnefnd velur þátttakendur. Íslenska hönnunarteymið FærID hlotnaðist sá heiður að vera valið til þáttöku í þetta skiptið og er ástæða til að óska þeim til hamingju með það og góðs gengis. Lítillega var fjallað um FærID hér á Hönnun & hlutir.


Sýningarnar standa  frá 29. júní til 9. júlí

Frá uppsetningu sýningarinar


Myndir: New Designers á Facebook
.
.

No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.