"Stóll er ekki tilbúinn fyrr en einhver situr í honum" (Hans J. Wegner)
Hans J. Wegner hannaði Skeljastólinn (Shell Chair) fyrir húsgagnaframleiðandan Carl Hansen & Søn árið 1963 en fyrir þá hafði hann teiknað marga vinsæla stóla, allt frá því að leiðir lágu saman árið 1949..
Skeljastóllinn átti að vera einstakur, framsækinn, þægilegur og á viðráðanlegu verði. Við hönnun stólsins notaði Wegner eiginleika krossviðar til hins ítrasta en á þessum tíma voru margir að gera tilraunir með húsgögn úr krossviði með misjöfnum árangri.
Niðurstaðan var svo sannarlega framsækin og ólík nokkrum öðrum stól nema ef vera mætti stól Eames frá 1946, en vissulega gengur Wegner enn lengra í meðferð viðarins og stóllinn hans hefur aðeins þrjá fætur.
En stóllinn öðlaðist ekki vinsældir og aðeins 15 eintök voru framleidd - síðustu tveir stólarnir voru meira að segja gefnir - svo dræm var salan. Það var því sjálfgefið að hætta framleiðslunni.
Það kom því flestum í opna skjöldu þegar Sotheby’s uppboðshúsið í London seldi tvo Skeljastóla á 20.000- sterlingspund stykkið árið 1997. Carl Hansen & Søn voru fljótir að taka við sér og hefja framleiðslu Skeljastólsins á ný en salan var enn dræm - stóllinn þótti of framúrstefnulegur. Smám saman tók þó framleiðslan við sér og stóllinn fór að seljast og hljóta verðlaun um allan heim.
Í dag - 50 árum síðar - er þessi stóll talin til eins af íkonum hönnunar 20. aldarinnar. Það sannast því að góðir stólar geta þurft langa meðgöngu.
Í dag - 50 árum síðar - er þessi stóll talin til eins af íkonum hönnunar 20. aldarinnar. Það sannast því að góðir stólar geta þurft langa meðgöngu.
Í tilefni 50 ára afmælisins völdu Hella Jongerius og Paul Smith saman liti og áklæði frá Maharam á tuttugu stóla á sýninguna The Shell Chair Project. Myndirnar að ofan eru af nokkrum þeirra.
Skeljastóll Hans J. Wegners er stundum kallaður "Brosstóll (Smile Chair)" af augljósum ástæðum |
Með þrjá fætur og hugvitsamlega gert burðarkerfi - en það má líka hugsa sér eitthvað dýr þegar horft er á hliðina. |
No comments:
Post a Comment
Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.