"Empty Chair" |
Um þessar mundir er haldið upp á 50 ára afmæli Amnesty International samtakanna. Í því tilefni buðu samtökin hönnuðinum Maarten Baas (1978) að hanna hlut sem notaður verður sem tákn í baráttu samtakanna gegn þvingun listamanna.
Í fyrra var Liu Xiaobo veitt friðarverðlaun Nobels vegna baráttu hans fyrir mannréttindum. Xiaobo situr í fangelsi í Kína vegna skoðana sinna. Hann var því ekki viðstaddur athöfnina í Osló - stóll hans var því auður eins og sagt var frá hér á síðunni.
Maarten hannaði stól sem hann nefnir "Empty Chair" til heiðurs Xiaobo. Bak stólsins er fimm metra hátt, það er kræklótt og teygir sig til himins á táknrænan hátt. Stóllinn var afhjúpaður á ráðstefnu Amnesty International um síðustu helgi (25.5.2011). Samtökin munu gefa út barmmerki með eftirmynd af stólnum sem verður, eins og áður segir, tákn í baráttuherferð gegn þvingun listamanna.
"Empty Chair" til heiðurs Liu Xiaobo teygir kræklótt bak til himna |
Efst: "Smoke" húsgögn Neðst: "Clay" húsgögn |
Maarten Baas (1978) hefur vakið mikla athygli fyrir hönnun og uppátæki sín. Árið sem hann lauk námi í Eindhoven hóf Moooi sölu á "Fire" húsgögnum hans. Þau vöktu mikla athygli og árið eftir var hann kominn með einkasýningu Í New York og "Smoke" komin á fjölmörg listasöfn. "Smoke" eru allskonar húsgögn, oft eftilíkingar þekktra húsgagna, sem eru sviðin á eldi og "rústirnar" síðan húðaðar með epoxy lakki. "Clay" húsgögn eru gerð úr leir.
Húsgögn Maartens eru handgerð og það er erfitt að skilgreina hvar þau eru staðsett á kvarðanum hönnun / list og afar erfitt að lýsa þeim í orðum. Þess vegna er best að skoða vefsíðuna hans, þar kennir ýmissa grasa.
No comments:
Post a Comment
Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.