Friday, October 21, 2011

Gamlir stólar og Skólahús í Grenivík

Gamlir skólastólar í smíðastofu Grenivíkurskóla
1. Í smíðastofunni - 2 og 4. Með vel þekktum félaga - 3. Stóllinn staflast mjög vel
Í Grenivíkurskóla komum við auga á þessa gömlu skólastóla í sumar. Þeim var snyrtilega staflað upp við vegg í smíðastofunni og það fór ekki á milli mála að þeir eru enn í notkun, þrátt fyrir háan aldur. Svona stóll hefði frá mörgu að segja, gleði, sorgum, sögum og söng, gæti hann talað - hver veit nema einhver hafi hæfileika til að ná sambandi. En þeir segja einnig hverjum sem vita vill ýmislegt áhugavert. Ef þeir hafa verið fyrstu stólar í "Gamla skólanum", sem er nokkuð líklegt, eru þeir 86 ára gamlir. Vera má að eitthvað hafi verið lappað upp á þá meira en með málningu en samsetningar, rör og tréverk eru í góðu ásigkomulagi. 
Um tíma mátti víða sjá svona stóla á flækingi en það er óvanalegt að sjá þá enn í notkun.
Gamlir en standa fyrir sínu þó ekki séu þeir samkvæmt stöðlum, enda enginn fullkomin skólastóll til.

Þetta eru einfaldir en sterkir stólar, hæfilega þungir og þeir staflast vel. Sé litið á hlutföll sést að þeir henta ekki vel til setu við borð, til þess er of mikill halli á setu og baki, sethæð passar fullvöxnum (kannske voru fleiri stærðir) og hátt bakið veitir lítinn stuðning. Þetta eru hin dæmigerðu vandamál skólastóla allra tíma - einnig í dag. Til gamans er hér teikning sem sýnir tvær algengar stærðir nútíma skólastóla - Rautt= stór, blátt= miðlungs.  Hér má sjá annan gamlan skólastól með forvitnileg hlutföll.

Gamli skólinn í´Grenivík  eftir Rögnvald Ólafsson 1925
Gamla skólahúsið í Grenivík var tekið í notkun árið 1925. Það var teiknað af Rögnvaldi Ólafssyni (1884-1917) arkitekt. Í því voru tvær kennslustofur og samkomusalur með senu. Í þessu húsi var skólahald og samkomuhús Grýtubakkahrepps til 1981, nú er skrifstofa Grýtubakkahrepps þar til húsa. 


Rögnvaldur var fyrsti Íslendingurinn sem nam byggingarlist og fyrsti nútíma húsameistarinn sem Íslendingar eignuðust. Meðal bygginga sem hann hannaði eru Pósthúsið í Reykjavík, Húsavíkurkirkja og Vífilsstaðahælið, ein mesta bygging landsins á þeim tíma, þar lést Rögnvaldur aðeins 43. að aldri árið 1917. 

Hér er góð grein um Rögnvald Ólafsson eftir Gísla Sigurðsson í Morgunblaðinu 1973.

.
.

No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.