Wednesday, August 1, 2012

Stóllinn sem fór til sjós


Snyrtilega er stólnum komið fyrir ásamt öðrum græjum karlanna.
Við erum í gönguferð norður í landi og tökum okkur ferð með bátnum sem trússar farangur hópsins á næsta næturstað. Það reynist svo sannarlega þess virði - á bakborða landið okkar í blíðskaparveðri og á stjórnborða Steypireyður í villtum dansi innan um bátana. Karlarnir blóta henni, hún tekur allan fiskinn. 
Hönnuðurinn, sem er alltaf í vinnunni, rekur augun í stól sem er snyrtilega komið fyrir ásamt öðrum græjum karlanna, þeir tylla sér á hann á meðan beðið er eftir línunni. Þetta er flottur stóll, bogið bak, mjúkt bólstur og vandað áklæði, hann minnir  svolítið á stól Finnska arkitektsins Eero Saarinen frá 1957. Stóllinn er dreginn fram myndaður og skoðaður á alla kanta. 
Þegar heim er komið eru myndirnar bornar undir fróðan mann sem hefur smíðað stóla í áratugi. Hann segir stólinn íslenska smíð, sennilega frá Stálhúsgögnum, og nefnir tvo möguleika og einn til vara - stóllinn er annaðhvort úr Klúbbnum sáluga, sem varð eldi að bráð, eða úr Loftleiðahótelinu sem nú heitir Natura eða (til vara) úr Sjallanum. Hann er að vinna í málinu og niðurstaðan birtist hér þegar hún liggur fyrir.
Þessi stóll má muna tímana tvenna. Hann hefur prýtt fínustu veitingahús landsins, beðið síðan eftir nýju og verðugu hlutverki og nú er hann kominn til sjós - í trillubransan. Og hvað er betra en að flytja Norður og eyða ævikvöldinu við veiðar í góðum félagsskap?


Systir blá stólsins er fundin.
Hún fæddist árið 1966

19.oktober 2012.
Í dag kom ég auga á þennan rauða stól inni á verkstæðinu hjá GÁ Húsgögn í Ármúlanum. Þarna er komið annað eintak af stólnum sem fjallað er um hér að ofan og ég forvitnast um það hjá Grétari bólstrara hvaðan stóllinn sé. Hann segir stólinn vera úr Hótel Loftleiðir sem nú heitir Natura. 
Hótel Loftleiðir tók til starfa árið 1966, væntanlega hefur stóllinn verið í Blómasalnum svokallaða, hann er því 46 ára gamall. Ekki veit ég hvert stóllinn á bólsturverkstæðinu á að fara en það sannast eitt sinn en sem oft er haldið fram hér á síðunni - á milli "gamalt" og "ónýtt" er ekki samasem merki.

Þessi staður er ólíkur skemmtanabransanum - enn skemmtilegur eigi að síður
Hver skyldi nú ævisaga hans vera
__________________________________________________
Stóll með reynslu í skemmtanabransanum 
óskar eftir plássi á góðum krókabát. 
Visamlega hafið samband við Góða hirðinn.
__________________________________________________



No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.