Friday, April 8, 2011

Harpa tónlistarhús frá hafi

Vinstra megin er ljósmynd, hægra megin er tölvugerð mynd

Það styttist óðum í að tónlistarhúsið Harpa opni. "Húsið þitt" og "Ný framtíðarsýn" segir á vef Hörpu. Húsið hannaði teiknistofa Henning Larsens i samstarfi við Batteríið arkitekta. Ólafur Elíasson hannaði glerhjúpinn sem umlykur húsið í samvinnu við arkitekta teiknistofunnar. Eitt af megineinkennum hans er tilvísun í ýmis fyrirbæri úr náttúrunni og einstök birtuskilyrði landsins. Sagt er að hjúpurinn verði einstaklega áhrifamikill sjávarmegin við húsið. Tölvugerða myndin hér að ofan, gerð af arkitektunum, sýnir húsið frá þessu sjónarhorni. Það er alltaf spennandi að sjá hve rétta mynd af byggingum tölvumyndir gefa, alltaf er hætta á að eitthvað fari úrskeiðis og útkoman verði önnur en myndin sýnir. Ég tók því nokkrar myndir til að kanna hve raunhæf tölvumyndin er. Vinstra megin er ljósmynd tekin á rigningardegi, hægra megin er svo tölvugerða myndin og það verður að segjast að útkoman er ótrúlega nákvæm. Veðrið hefur reyndar verið skárra daginn sem tölvumyndin var gerð en þá ber líka að hafa í huga að ekki er búið að "kveikja" á húsinu þegar ljósmyndin var tekin, það mun væntanlega breytast mikið þegar ljósin inni verða tendruð. Að neðan er svo mynd af húsinu, höfninni og Reykjavík af hafi, það er hægt að skoða hana stærri hér. 

Reykjavík, Harpa og höfnin af hafi.
.
Hér er önnur samskonar pæling

.
.

No comments:

Post a Comment

Gaman væri að heyra frá þér. Skrifaðu ummæli hér.